Barnahús opnað á Akureyri í dagFrá opnun Barnahússins í morgun. Mynd: Akureyrarbær.

Barnahús opnað á Akureyri í dag

Í morgun var opnað á Akureyri Barnahús á Norðurlandi sem er fyrsta útibúið frá Barnahúsi í Reykjavík. Þetta kemur fram í frétt á vef Akureyrarbæjar.

Opnun útibúsins felur í sér að til staðar verður sérútbúin aðstaða fyrir börn sem fá meðferðarviðtöl frá Barnahúsi. Einnig hefur verið útbúin sérstök aðstaða með nýjustu tækni þar sem hægt verður að taka rannsóknarviðtöl við börn, bæði á vegum barnaverndarnefnda og dómstóla. Er aðstaðan til skýrslutöku síst síðri þeirri sem er í Barnahúsi í Reykjavík.

Útibúið er opnað í góðri samvinnu við Lögregluna á Norðurlandi eystra, barnaverndarnefnd Eyjafjarðar og dómstólasýsluna og mun útibúið geta veitt börnum af öllu Norðurlandi þjónustu, og börnum sem búsett eru annars staðar, teljist það þjóna hagsmunum viðkomandi barna.

Opnun útibús Barnahúss felur í sér byltingu við þjónustu við börn utan höfuðborgarsvæðisins.

Við athöfnina í morgun söng eldri barnakór Akureyrarkirkju þrjú lög og síðan fluttu stutt ávörp Heiða Björg Pálmadóttir forstjóri Barnaverndarstofu, Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Ólöf Ásta Farestveit forstöðumaður Barnahúss, Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, Halldór Björnsson starfandi dómstjóri Héraðsdómi Norðurlands eystra og Vilborg Þórarinsdóttir forstöðumaður barnaverndar hjá fjölskyldusviði Akureyrarbæjar.

Sambíó

UMMÆLI