Góðgerðarvika stendur nú yfir í Menntaskólanum á Akureyri þar sem nemendur standa fyrir fjársöfnun til styrktar góðu málefni með söfnun áheita. Þetta er í þriðja skiptið sem nemendur halda góðgerðarviku til styrktar málefni sem kosið er um í aðdraganda vikunnar. Í ár var kosið að söfnunarféð skildi renna óskipt til göngudeildar SÁÁ á Akureyri, samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavanda. Eins og flestum er kunnugt var göngudeildinni lokað 1. mars vegna skorts á fjármagni. Viðræður standa nú yfir milli Sjúkratrygginga Íslands og SÁÁ.
Á síðasta ári rann allur ágóði góðgerðarvikunnar til Aflsins, samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi en árið á undan styrktu nemendur geðdeild SAk.
Markmið nemenda er að safna einni milljón króna. Til að ná því markmiði þurfa nemendur að leggja ýmislegt á sig og fara út fyrir þægindarammann. Áhugasamir geta kynnt sér hinar ýmsu áskoranir sem nemendur taka sér fyrir hendur í vikunni á fésbókarsíðu skólafélagsins Hugins.
Dæmi um áheitin eru að fólk skiptir um bekk í heilan dag, nemendur halda 24 klst. íþróttamaraþon, spila skák í heilan skóladag, allir kennarar koma með köku fyrir umsjónarbekkinn sinn, nemendur róa á bát frá hjalteyri til Akureyrar og svo lengi mætti telja.
Við hvetjum alla til að sýna stuðning sinn í verki en nemendur taka við frjálsum framlögum. Hægt er að leggja inn á reikning 162-15-382074, kt. 470997-2229.
SJÁ EINNIG:
UMMÆLI