Á föstudaginn, 15. mars, standa Stúdentafélag Háskólans á Akureyri, Huginn skólafélag Menntaskólans á Akureyri og Þórduna nemendafélag Verkmenntaskólans á Akureyri fyrir loftlagsverkfalli á Ráðhústorgi.
Verkfallið er innblásið af hinni sænsku Gretu Thunberg, en skólaverkfall hennar hefur vakið mikla athygli. Nú þegar hafa tugþúsundir ungmenna farið að hennar fordæmi og flykkst út á götur til að mótmæla aðgerðarleysi stjórnvalda í baráttunni við loftslagsbreytingar, m.a. í Belgíu, Bretlandi, Bandaríkjunum, Ástralíu, Þýskalandi og Svíþjóð.
Nýjustu tölur Gallup sýna að fleiri Íslendingar en nokkru sinni fyrr hafa áhuga á – og áhyggjur af – umhverfismálum en þó fer losun gróðurhúsalofttegunda enn vaxandi.
Nánar um viðburðinn má nálgast með því að ýta HÉR.
Vilja sýna stjórnvöldum að almenningur sé meðvitaður um alvarleika málsins og vilji rótttækar aðgerðir.
Stjórnvöld hafa sett sér aðgerðaráætlun í loftslagsmálum til ársins 2030 og gera meðal annars ráð fyrir kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Við viljum styðja við bakið á þeim aðgerðum, en betur má ef duga skal. Núverandi aðgerðaáætlun er ekki í samræmi við markmið um að halda hlýnun innan 1,5 gráðu á heimsvísu og við krefjumst aðgerða sem eru líklegar til að skila þeim árangri.
Ljóst er að stórauka þarf fjárframlög til loftslagsaðgerða. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) reiknast til að verja þurfi 2,5% af heimsframleiðslu til loftslagsmála á ári til ársins 2035 til að halda hlýnun innan við 1,5 gráður. Núverandi áætlun er upp á 0,05% af þjóðarframleiðslu á ári næstu fimm árin.
,,Við krefjumst þess að Ísland taki af skarið, hlusti á vísindamenn, lýsi yfir neyðarástandi og láti hið minnsta 2,5% af þjóðarframleiðslu renna beint til loftslagsaðgerða. Þar verður atvinnulífið einnig að axla ábyrgð og til þess verður ákveðin viðhorfsbreyting að eiga sér stað. Við viljum afdráttarlausar aðgerðir. Núna. Fyrir komandi kynslóðir. Fyrir loftslagið,“ segir í yfirlýsingu frá skipuleggjendum verkfallsins.
UMMÆLI