NTC

Í Nýja Englandi á baráttudegi kvenna

Í Nýja Englandi á baráttudegi kvenna

images

Í dag, á þessum alþjóðlega baráttudegi kvenna, er ég stödd í borginni Burlington sem er í Vermont fylki í norðurhluta Bandaríkjanna. Ég er hér aðallega til að hitta barnabarn sem er fimm mánaða yndissnáði og eyði með honum dögunum að mestu. Við erum því laus við að vera mikið að velta umheiminum fyrir okkur skötuhjúin, enda er mjög kalt og lítið fyrir okkur að sækja þangað núna. Ungabörn sofa aldrei úti í vögnum hér og dæmi þess að íslendingar hafi hreinlega verið lögsóttir fyrir að reyna slíkt. Við söknum þó einskis við tvö, það er hlýtt hjá okkur og okkur leiðist bara frekar lítið.

Það er auðvitað mikið að gera hjá litla athafnamanninum, hann er sko aldeilis ekki iðjulaus. Það þarf að æfa sig í svo mörgu. Það þarf að æfa sig í að sitja, að snúa sér, að ná í alla þessa hluti sem maður sér og smakka á þeim, að prófa nýja hluti svo sem að borða graut og ótal margt fleira. Og amma snýst eins og skopparakringla að sækja dótið sem hent er á gólfið, blanda pela og njóta þess að vera hér og nú.

Ég auðvitað velti fyrir mér stöðu kvenna á þessum degi eins og ég geri að einhverju leyti flesta daga og hugsanir mínar í dag, litast heilmikið af pælingum í stöðu þeirra hér í Bandaríkjunum. Auðvitað eru þau ekki eitt ríki og misjöfn löggjöfin en menningin hér í Vermont er í það minnsta all mikið öðruvísi en við þekkjum hér heima. Fæðingarorlof er að hámarki tólf vikur og að því loknu tekur við að finna barnagæslu sem er dýr enda ekki niðurgreidd og það eru biðlistar hér rétt eins og heima. Að öðrum kosti hætta konur að vinna og gerast heimavinnandi mæður. Heimavinnandi feður eru til en þeir eru miklu mun fámennari.

Vermont fylki er þekkt fyrir frálslyndi enda kjördæmi Bernie Sanders sem er fylkisstjóri Vermontbúa og hér eru lög sem tryggja foreldrum allt að tólf vikna leyfi vegna barnsburðar og það innifelur veikindi á meðgöngu, mæðraskoðanir og alla frídaga eftir að barnið fæðist. Þetta leyfi er ólaunað en hægt er að fara fram á það við vinnuveitanda að fá sex vikur greiddar af uppsöfnuðum frídögum að mér skilst. Hið opinbera kemur ekki nálægt neinum greiðslum.

Kjósi kona að vinna úti eða hreinlega á ekki annars úrkosti tekur við önnur vinnumenning en við þekkjum. Bandaríkjamenn vinna ákaflega langan vinnu- dag, samkeppni á vinnustöðum er mikil og réttindi eru oft lítil. Það kallast gott að fá tveggja vikna sumarleyfi og samkeppnin er slík að mjög margir kjósa að nota ekki þessar tvær vikur heldur vinna allt sumarið. Enda sýna rannsóknir að streitutengd einkenni, kulnun á vinnustað og veikindi vegna örmögnunar eru ört vaxandi vandamál í Bandaríkjunum. Og kerfið sem grípur fólk að einhverju leyti á Íslandi s.s. sjúkrasjóðir stéttarfélaga og lífeyrissjóða, er ekki til staðar á sama hátt og á Íslandi. Veikindadagar sem slíkir eru sjaldnast hluti af kjörum fólks heldur svokallaðir persónulegir dagar sem eru þá eigin veikindi, veikindi barna og aðrir frídagar sem þú gætir þurft að fá. Nokkuð gott eða hvað?

Nú þær og þeir sem hafa efni á góðum tryggingum eða semja um þær í kjörum sínum eru auðvitað í betri málum og geta tryggt sig fyrir eigin veikindum og einnig fyrir kostnaði við fæðingu og fæðingarorlof.

Margt er auðvitað frábært í þessu landi alsnægtanna, laun geta verið há og skattar eru lágir en glerþakið er líka ákaflega lágt og talið er að einungis 43% kvenna í vinnu hafi laun sem duga þeim til framfærslu.

Ég nefni þetta allt í dag á þessum baráttudegi kvenna til að minna á þá staðreynd að réttindin sem við þó njótum á Íslandi eru dýrmæt og að ekki allar konur veraldar þekkja til slíkra réttinda. Íslenskir verkalýðsleiðtogar börðust fyrir þeim sem og auknum jöfnuði í launakjörum og um þessi verðmæti höfum við ekki staðið vörð. Við höfum ekki farið vel með velferðina, kjörin okkar gliðna æ meira og ef við ekki gætum okkar verður til stétt auðmanna sem nýtir sér þá velferð sem skattar okkar fara í að borga, en borga þó ekki skatta sjálfir nema að litlu leyti.

Verkföll eru alvörumál og öllum erfið en verkakonur á lágmarkslaunum þurfa að eiga sér rödd, bæði á Íslandi og annarsstaðar í heiminum-öðruvísi glutrum við niður velferðinni.

Ég vona að litli kúturinn sem nú er farinn í háttinn muni verða fyrirmyndarborgari, feministi og sósíalisti og vonandi hefur hann mannbætandi áhrif á samfélagið hvar sem hann verður í framtíðinni. Það er þó foreldranna að ala upp með honum gott siðferði og ég er ekki í vafa um að þau gera það vel og fallega.

Kveðjur frá Burlington.

IMG_7329
VG

UMMÆLI

Sambíó