Þórsarar tryggðu sér sæti í úrvalsdeild karla, Dominos deildinni, með sigri á Snæfelli í kvöld.
Leikurinn var spilaður í Stykkishólmi og endaði 88:62 fyrir Þórsara eftir að heimamenn í Snæfelli leiddu óvænt í hálfleik 36:31.
Larry Thomas skoraði 21 stig fyrir Þór og tók 14 fráköst, Ingvi Rafn Ingvarsson skoraði 17 og þeir Pálmi Geir Jónsson og Bjarni Rúnar Lárusson 14 hvor. Hjá Snæfelli var Darrell Flake atkvæðamestur með 19 stig.
Þórsarar eru því komnir með 32 stig í deildinni þegar ein umferð er eftir. Fjölnir sem situr í 2. sæti deildarinnar og spila nú við Hött þegar þetta er skrifað hafa 28 stig, en eftir sigur Þórsara í kvöld er ljóst að Fjölnir geta ekki unnið deildina og Þórsarar því deildarmeistarar og fara beint upp í Dominos deildina en Fjölnir spila í umspili um sæti í efstu deild.
UMMÆLI