Leikfélag Menntaskólans á Akureyri frumsýnir söngleikinn Útfjör á morgun, laugardaginn 9. mars kl. 20:00. Söngleikurinn er nýstárlegur og fjallar um eitthvað sem snertir okkur öll – okkar eigin fjölskyldu en söngleikurinn er byggður á bókinni Fun Home: A Family Tragicomic eftir Alison Bechdel.
Útfjör var sigurvegari á Tony-verðlaununum 2015 og vann þar á meðal verðlaun fyrir besta handrit og bestu tónlist og var auk þess valinn besti söngleikurinn það árið.
Upplífgandi og opinskár söngleikur
Í söngleiknum hittum við Alison á þremur mismunandi aldursskeiðum. Minningar hennar um barnæskuna á áttunda áratugnum á útfararstofu föður síns fléttast við líf hennar þegar hún flytur burt til að fara í háskólanám, ástarsamband hennar og upplifun hennar af því að koma út úr skápnum. Á ferðalagi á milli fortíðar og nútíðar endurupplifir Alison einstök uppvaxtarár sín þar sem hún leikur sér á útfararstofu fjölskyldunnar, árin sem hún horfist í augu við kynhneigð sína og reynir svo að svara spurningum um duldar hvatir föður síns. Útfjör er upplífgandi og opinskár söngleikur um fjölskyldu sem þú hefur aldrei séð áður en er kannski líkari þinni eigin fjölskyldu en þú þorir að viðurkenna.
Sjö sýningar í mars
Það er Anna Gunndís Guðmundsdóttir sem leikstýrir sýningunni en hún þýddi einnig verkið ásamt eiginmanni sínum Einari Aðalsteinssyni. Sýningarnar verða í Samkomuhúsinu á Akureyri og verða sjö talsins. Frumsýningin er á morgun, 9. mars og lokasýning verður 23. mars. Miðaverð er 2.900 krónur og eru miðar seldir á Tix.is
UMMÆLI