Akureyringurinn og brettamaðurinn Eiki Helgason stefnir að því að opna innanhússaðstöðu fyrir bretta- og línuskautafólk á Akureyri. Hann setti inn færslu á facebook-hópinn Indoor Park á Akureyri í gær þar sem hann óskaði eftir að kanna áhuga fólks sem stundar þess konar íþróttir fyrir húsnæðinu.
Innanhússaðstaðan yrði þá í kringum 500 fm með pöllum og römpum þar sem fólk getur spreytt sig á hjólabrettum, hlaupahjólum, BMX, línuskautum o.s.fv. Í færslunni segist hann stefna að því að selja árskort og mánaðaráskriftir að aðstöðunni, ef áhugi er nægilega mikill til að opna slíkt húsnæði á Akureyri. Pósturinn hefur fengið mikil viðbrögð fólks og foreldra sem segja svona aðstöðu sárlega vanta á landið. T.d. er einn faðir sem segist alvarlega íhuga það að flytja norður með strákana sína verði aðstaðan opnuð.
Nú þegar hafa rúmlega 100 manns staðfest áhuga sinn og segjast munu kaupa aðild ef hugmyndin verður að veruleika.
UMMÆLI