NTC

Pizza Smiðjan opnar á þriðjudaginn – „Það vantaði svona stað á Akureyri“Búið er að fara í miklar framkvæmdir undanfarna þrjá mánuði og öllu breytt á staðnum sem áður var La Vita e Bella. Á þriðjudaginn opnar Pizza Smiðjan, nýr pizzastaður á Akureyri.

Pizza Smiðjan opnar á þriðjudaginn – „Það vantaði svona stað á Akureyri“

Veitingafólkið Einar Geirsson og Heiðdís Fjóla Pétursdóttir stefna á að opna dyrnar að nýjum stað á Akureyri næstkomandi þriðjudag, 12. febrúar. Saman eiga þau fyrir veitingastaðina Rub23, Sushi Corner og Bautann, en Bautann og La Vita e Bella keyptu þau síðastliðið sumar.

La Vita e Bella lokuðu þau hjónin síðasta haust til að opna glænýjan pizzastað á Akureyri. Staðinn skýrðu þau Pizza Smiðjuna en nafngiftina má rekja til þess að áður en La Vita e Bella opnaði var Smiðjan þar til húsa, eitt vinsælasta veitingahús Akureyrar í þá daga.

Einar og Heiðdís segja klárlega vera markað fyrir slíkan stað á Akureyri enda sé ákveðin sérstaða í því sem Pizza Smiðjan hefur upp á að bjóða. „Það vantaði svona stað á Akureyri, það er enginn að gera einmitt þetta sem við erum að gera. Það er enginn með bara pizzastað, allir eru með eitthvað annað líka en við einblínum bara á pizzuna. Við erum að fá mjög góð og jákvæð viðbrögð, það bíða allir spenntir,“ segir Heiðdís Fjóla í samtali við Kaffið.

Óhefðbundnar pizzur
Pizza Smiðjan er aðeins með eina stærð af pizzum, í kringum 10-12“ pizzur sem gerðar eru úr súrdeigi. Súrdeigið og sósan er lagað á staðnum og aðeins notað ferskasta hráefnið. „Þetta eru súrdeigspizzur og sósan er líka löguð á staðnum. Við vorum kannski endilega með pizzu í huga þegar við settum saman pizzurnar á matseðlinum, heldur bara það hráefni sem passar vel saman. Flestar eru þær frekar óhefðbundnar en svo geturu líka gert bara þína eigin margaritu ef þér líst ekkert á þetta,“ segir Einar en á matseðlinum má m.a. finna pizzu með tígrisrækjum, rjómaosti, hunangi og chillísósu. Enn önnur pizzan er með rifinni önd, döðlum og jarðsveppamæjó svo dæmi séu tekin.

Tekur 90 sekúndur að elda pizzurnar
Nýi staðurinn tekur allt að 70 manns í sæti, í kringum 20 á efri hæðinni og rúmlega 40 á neðri hæðinni. Þau hjónin hafa unnið hörðum höndum að því að breyta staðnum frá A-Ö að innan til að opna þennan nýja og glæsilega stað. Á staðnum er opið eldhús þegar þú kemur inn, þar sem þú getur fylgst með gerð pizzunnar þinnar á meðan þú bíður en það tekur aðeins 90 sekúndur að baka pizzuna í þessum glænýja eldofni sem hjónin fluttu inn frá Ítalíu. Ofninn, sem er innfluttur, var 2,5 tonn að þyngd og þurfti því að taka þrjá glugga úr húsinu til að koma honum inn.

„Þú kemur inn, pantar sjálfur og getur annað hvort sest hjá okkur eða tekið með þér. Við erum að stíla inn á sjálfsafgreiðslu frekar en að þjóna til borðs. Þetta gengur svo hratt fyrir sig, pizzan er bara 90 sekúndur í ofninum svo að það á ekki að vera bið,“ segja þau Einar og Heiðdís.

Gott starfsfólk lykilatriði
Pizza Smiðjan verður opin alla daga frá kl. 16.30 á daginn en með vorinu verður líklega haft opið allan daginn, alla daga. Einar og Heiðdís segja framkvæmdirnar og undirbúningur fyrir komandi opnun hafa gengið mjög vel fyrir sig og að þau finni fyrir miklum spenningi í nærsamfélaginu eftir opnuninni. Það virðist sem þessi fjórði staður í flórunni sé ekkert mál og þau eru bara spennt fyrir framhaldinu. „Það er kostur að þessir staðir okkar eru allir hlið við hlið, það auðveldar þetta mikið. Svo erum við með fullt af góðu starfsfólki í vinnu hjá okkur og það er eiginlega lykillinn að þessu öllu saman,“ segja þau að lokum.

Pizzurnar á matseðli eru með óhefðbundnu sniði.
VG

UMMÆLI

Sambíó