Framsókn

Þegar ég varð gömul

Þegar ég varð gömul

images

Mér sýnist á öllu að ég sé orðin gömul. Og það sem meira er, það virðist hafa gerst á einni nóttu. Um miðja síðustu viku sofnaði ég hipp og kúl að eigin áliti og upplifun og svo miklu yngri en árin sögðu til um. Næsta morgun eiginlega hrökk ég upp við það að ég var orðin gömul.

Auðvitað hafði ég ekkert breyst á þessari einu nóttu. Ég les enn gleraugnalaus þótt það megi nú litlu muna á stundum, – ég er jafn stirð og áður ég finn ennþá fyrir veðrabreytingum í hægri mjöðminni. Ég er ennþá nokkuð tæknifær, góð á fjarstýringar og síma sem þýðir að ég er enn ágætlega fær um að læra nýja hluti, og ég er enn gefin fyrir að keyra ívið of hratt. Þetta breyttist ekkert, nóttina sem ég varð gömul en eitthvað annað breyttist. Allt í einu hætti mér að finnast ég vera á fyrri hluta ævinnar og ég uppgötvaði að ég var sigin yfir á hina hliðina. Ég á barn sem er komið á fertugsaldur og ég á barnabörn og það eru bara fjögur ár þar til mér verður boðið í félag aldraðra. Ég er löngu orðin gráhærð og ef að mannkynið skiptist í tvo hópa, ungt fólk og gamalt fólk,- þá held ég að ekki þurfi vitnanna við. Ég tilheyri seinni hópnum.

Hvernig lýsir sér þá þessi hugarfarsbreyting? Jú ég gerði þá uppgötvun að það er komin fram kynslóð af ungu fólki sem ég bara botna ekkert í. Eða lítið. Ekki það að við getum vissulega talað saman, mér finnst ungt fólk upp til hópa frábært og þau eru skemmtileg og klár en þau tala tungumál sem ég skil ekki lengur, þau upplifa heim sem er ekki lengur minn heimur og þeirra viðhorf og skilgreiningar eru þaðan. Þau eru ekki með annan fótinn í snjalltækjum og stafrænum heimi, þau eru fædd inn í þann heim og eiga þar heima. Það að lesa bækur og blöð, er þeim mörgum orðið framandi og þau hafa ekki hugmynd um hvernig skífusími virkar. Línuleg dagskrá í sjónvarpi er fjarlæg hugmynd og hvað þá sjónvarp sem tekur sér frí bæði á fimmtudögum og í júlímánuði eins og mín kynslóð man svo vel.

Ég sjálf, sem í mínum athyglisbresti tók snjalltækjum fagnandi og sekk mér helst til hraustlega ofan í þau, kemst aldrei með tærnar þar sem ungt fólk hefur hælana í þessum efnum.

Er þeirra heimur þá betri eða er betra að vera gömul?

Að mínu mati er hvorugt betra. Ég elska að vera á mínum aldri, ég elska að þekkja fleiri en eina heimsmynd, ég elska reynsluna mína og að vera komin þangað sem ég er stödd núna. Mér finnst eiginlega bara frábært að kæra mig kollótta um hvort ég sé hipp eða kúl, hvort ég er á gúmmístígvélum eða hælaskóm. Ég nenni ekki lengur að skilja nýja tónlist en ég vil líka sleppa við harmonikutónlist og íslensk einsöngslög. Að verða gömul er ákveðið frelsi og svolítið eins og að verða aftur ungur að því leyti að ég get slakað á og leyft mér að vera algjörlega sú sem ég er. Eða eins og meistari Bowie orðaði það, sú sem ég alltaf átti að vera.

Það sem er kannski mikilvægast í þessu öllu er samt að það á að vera stórkostlegt að vera ungur og það á að vera stórkostlegt að vera gamall. Ég vil að skoðanir mínar skipti máli í samfélaginu og ég vil að mér sé sýnd virðing,- það viljum við öll ung og gömul. Við eigum líka til þess sama rétt, hvert og eitt.

233601-325x487-bell-bottom-everything

Ég ætla að reyna að vera sátt við sjálfa mig og ég ætla líka að reyna að bera virðingu fyrir þeim sem ég skil ekki, hvort sem þeir eru ungir eða gamlir. Það er auðvitað misjafnlega erfitt en þannig eru jú öll verðug verkefni. Svo er bara að setjast með snjallsímann í ruggustólinn og nota youtube til að rifja upp hvernig var að vera diskódís.

VG

UMMÆLI

Sambíó