Amma mín á Akureyri var lágvaxin og mjúk. Það var gott að kyssa hana á vangann og hún var eiginlega alltaf heima og til staðar. Hún var aldrei uppteknari af því að tala við annað fólk en barnabörn og hún var sannarlega ekki á facebook eða instagram. Hún bjó til dásamlegan mat, betri rjómaís en aðrir og ávanabindandi piparkökur í lítilli Rafha eldavél sem einhverntíma hafði verið stórkostleg tækninýjung. Rjómaterturnar hennar voru stórkostlegar og eftir að hún eignaðist frystikistu í eldhúsið uppgötvaði hún þá snilld að skella þeim í frystinn og átti þannig alltaf rjómatertu ef gesti bar að garði. Fjölskyldan mætti gjarnan óvænt og hún veiddi þá upp gaddfreðna rjómatertu með orðum sem urðu sígild í okkar hópi,- „æ æ, er hún frosin?” og hún var alltaf jafn hissa. Amma var með gláku og hennar kúlínarisku listaverkum fækkaði með hrakandi sjón en aldrei lét hún hjá líða að bjóða upp á eitthvað gott úr kistunni með kaffinu, það var auðvitað ekki í boði að eiga bara molasopa handa hjörðinni sem ruddist inn að vild, án þess að hringja dyrabjöllu eða gera boð á undan sér. Amma var væn og góð og aldrei man ég eftir því að hún léti í ljós að henni mislíkaði hvernig húsið hennar var umferðarmiðstöð fjölskyldunnar eða hefði óskir um að við kæmum frekar í heimsókn við betra tækifæri. Öll tækifæri voru góð í hennar huga, að því er virtist.
Og nú er ég orðin amma. Allt öðruvísi amma sýnist mér á öllu en líklega eru tilfinningarnar þær sömu samt. Ég er skrýtna amma sem dansar og syngur, segir sonur minn, fer ekki í vinnuna en er samt alltaf upptekin við eitthvað og þessari ömmu hentar ekki umferðarmiðstöðvarstíllinn, alls ekki! Nei hún er dálítið haldin af þráhyggjum ýmiskonar og líkar ekki vel þegar hlutir koma henni á óvart, það veldur henni bara kvíða. Amman ég elskar að fá barnabörnin í heimsókn en hún þarf að vera óþreytt og vel upplögð og finna að hún ráði vel við verkefnið.
Amma mín, hlýtur oft að hafa verið þreytt og örg með öll barnabörnin á hlaupum um húsið en hún lét það sannarlega ekki í ljós, hún virtist ekki hafa neinar þráhyggjur og hvorki vera að berjast við kvíða eða depurð. Hún bara virtist njóta tilverunnar sem vissulega var einfaldari þá, með reglubundnari og hægari takti en þeim sem ræður okkar lífi í dag. Þó veit ég að hennar líf var engan vegin laust við sorgir og áföll, langt því frá, en æðruleysið virtist vera henni eðlislægt og hún var mjög einlæg í allri sinni elsku.
Ég var svo heppin að fá að eignast tvær ömmustelpur sem eru samkvæmt skilgreiningu barnabörn mannsins míns, en foreldrar þeirra hafa aldrei látið mig finna annað en ég sé amma þeirra og þær auðvitað ekki heldur. Svo eignaðist ég fyrsta barnabarnið sem er mitt líffræðilega afsprengi, nú í haust og ég fann jú að það var einhvernvegin öðruvísi. Ekki það ég elskaði hann meira en þær en þarna voru nýjar tilfinningar á ferðinni og ég var búin að spá svolítið í þennan mun og í hverju hann lægi, þegar það loks rann upp fyrir mér hvernig þetta væri vaxið. Litlu frænkurnar fæddust í þennan heim, dásamlegar og fullkomnar, lítil kraftaverk sem ég var heilluð af en ég þurfti að kynnast þeim til að elska þær og auðvitað er auðvelt að þykja bara vænna og vænna um þær. Með drenginn er það aftur þannig að amma gat elskað hann strax, ég leit bara á hann, fann að ég þekkti hann ofurvel og fann strax djúpar og miklar tilfinningar sem ég þurfti ekki að bíða eftir. Meira að segja þegar pabbi hans fæddist þurfti ég að bíða eftir móðurástinni, ekki reyndar lengi en ég var ung og óreynd mamma og þekkti hann aldeilis ekki eins og ég þekki son hans. Það er einhver vissa á frumustigi, djúpt í genunum mínum, sem segir mér hver hann er, hann er minn í gegnum pabba hans. Maðurinn minn kannaðist við þetta þegar ég lýsti fyrir honum þessum mun en sagði að um leið og hann gat tekið snáðann í fangið sem var ekki fyrr en nokkrum vikum eftir fæðingu, hafi hann orðið hans á sama hátt og hans eigin barnabörn.
Þegar frá líður breytist þetta og ég mun elska ömmubörnin öll á sama máta en þessi munur gagnvart þeim nýfæddum sýnir mér mjög vel hversu lífsmynstrið er fallega ofið. Það segir mér líka að á sama hátt og amma mín var öðruvísi amma en ég þá eru tilfinningarnar mínar jafn sannar og djúpar og þær voru hjá henni þótt líf okkar og aðstæður séu allt öðruvísi. Lífsvefurinn er samur við sig og það eru stórkostleg forréttindi að fá að verða amma og afi. Maður getur leyft sér að njóta elskunnar til þessara dásamlegu einstaklinga án ábyrgðarinnar sem fylgir því að eiga að ala þau upp. Við getum treyst því að þetta unga fólk, foreldrarnir, sé betur til þess fallið en við.
Líkamlega eru þau sterkari, betur fær um að vaka á nóttunni og trúið mér að sá sem er þriggja mánaða en þegar átta kíló er sko farinn að taka í axlir og bak á 55 ára gamalli ömmu eftir fárra daga samveru. Foreldrarnir eru einnig betur fær um að aðlagast breyttri veröld og taka skynsamlegar ákvarðanir fyrir börnin sín í framtíðinni. Afar og ömmur eiga svo verðmæt innlegg í uppeldið, innlegg sem eru mótuð af öðrum tímum og annarri lífsreynslu. Þau eru mikilvægur hluti þorpsins sem elur upp barnið.
Okkar er sumsé að treysta börnunum okkar í nýju hlutverki og njóta þess að fá að vera á hliðarlínunni, hvetja og uppörva og njóta árangursins. Stundum stígum við yfir þessar fínu línur sem skilja að umhyggju og afskiptasemi eða jafnvel stjórnsemi. Þá þarf að sýna okkur mildi og benda okkur vinsamlega á að stíga út af vellinum aftur. Við erum jú líka ný í hlutverkinu og það er svo stutt síðan við vorum foreldrar sjálf með allri ábyrgðinni að það er auðvelt að gleyma sér.
Það eru ekki bara barnabörnin mín sem eiga margar ömmur og afa, fjölskyldur voru líka flóknar hér áður fyrr og sjálf átti ég þrjár ömmur. Eina þá sem hér var lýst í upphafi og lék stærsta hlutverkið í lífi okkar enda bjó hún á sama stað og við. Hinar tvær bjuggu annarsstaðar, voru reyndar systur þótt ólíkar væru, en yndislegar og jafnmiklar ömmur okkar báðar tvær. Ömmur eru nefnilega allskonar, stórar, litlar, skáömmur og stjúpömmur, gamlar og ungar, lasnar og frískar…en allar vonandi dýrmætar og afarnir líka.
Höldum bara fast í alla þræðina í lífsvefnum, því fleiri sem þeir eru því fallegri og litríkari verður tilveran.
Pistillinn birtist upphaflega á bloggsíðu Ingu Dagnýjar Eydal
UMMÆLI