Gunnar M. Guðmundsson, framkvæmdastjóri SBA-Norðurleiðar segir að fyrirtækið muni ekki aka um Vaðlaheiðargöng vegna verðsins sem kostar að keyra þar í gegn. Hann segir að veggjöld fyrir stóra bíla séu allt of há. Hann vill viðræður um betri kjör og fleiri gjaldflokka fyrir rútur. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Gunnar segir í samtali við fréttastofu að það sé of dýrt fyrir fyrirtækið að keyra göngin miðað við þann mikla fjölda dagsferða sem rútur fyrirtækisins fari að jafnaði út frá Akureyri. Veggjald fyrir bíla sem eru yfir 3,5 tonn að þyngd er 6000 krónur en mest er hægt að kaupa 40 ferðir í einu fyrir þá bíla og þá lækkar verð fyrir hverja ferð niður í 5220 krónur.
„Að mínu mati þá er þetta allt of hátt gjald 5.220 krónur. Það er verið að tala um 13% afslátt, bundið við einhverja Evrópureglugerð, en mér finnst það mjög einkennilegur útreikningur,“ segir hann við RÚV. Guðmundur gagnrýnir einnig að ekki sé hægt að kaupa fleiri ferðir fyrir þyngri bíla.
„Á stærstu dögum hjá okkur værum við að borga um 700 þúsund krónur á dag í göngin, sem er náttúruleg ekki hægt að hleypa út í verðlagið. Auðvitað nota einhverjir göngin. Það er ekkert vandamál í stöku hringferðum og stöku leggjum að fara göngin. En í dagsferðum út frá Akureyri, fram og til baka, 10-12 þúsund krónur á bíl, það gengur ekki.“
Gunnar vonast til þess að ná samkomulagi um breytingar á gjaldskránni en fyrirtækin hafa nú þegar fundað vegna málsins.
„Ég held að, eins og þetta er uppsett núna, þá gangi þetta ekki upp. En ég vona það besta að menn finni lausnir á þessu. Auðvitað viljum við keyra göngin.“
UMMÆLI