Borgin mín er nýr liður á Kaffinu. Þar komum við til með að ræða um borgir víðsvegar í heiminum og Akureyringa sem eru eða voru búsettir þar. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði. Að þessu sinni fengum við Kristján Stein Magnússon til að fræða okkur um Seattle í Washington.
Seattle, Washington
– Hvers vegna býrð þú í borginni? Og af hverju valdirðu hana frekar en aðrar?
Ég bý hér vegna þess að ég er í meistaranámi í verkfræði við University of Washington. Ég hef búið hérna síðan í september 2015. Ég hafði val um meistaranám í nokkrum skólum á Norðurlöndunum ásamt skólanum hér og ég valdi þennan skóla bæði vegna þess að bæði skólinn og borgin virkuðu mjög heillandi og ég fékk boð um rausnarlegan styrk til námsins sem losaði mig úr fjötrum LÍN.
– Í hvernig húsnæði býrðu og hvar? (Stúdíóíbúð, herbergi, miðsvæðis, úthverfi) Og er það dýrara en að leigja heima á Íslandi?
Fyrsta árið bjó ég í tveggja herbergja íbúð á neðstu hæð í blokk ásamt unnustu minni en eftir að hún flutti heim í haust flutti ég inn til hjóna sem taka að sér að hýsa námsmenn sem þurfa húsaskjól til skemmri tíma. Það var nokkurs konar lottóvinningur að lenda inni hjá þeim þar sem að þau bjóða mjög sanngjarnt leiguverð fyrir herbergi hjá þeim ásamt því að ég er nokkurn veginn í fullu fæði hjá þeim. Leiguverðið Í gömlu íbúðinni var rétt rúmlega $1000 á mánuði sem er mjög vel sloppið fyrir íbúð í nágrenni við háskólann. Fasteignaverð í Seattle er mjög hátt um þessar mundir enda eru risafyrirtæki í ýmsum iðnaði að stuðla að gríðarlegri uppbyggingu á svæðinu eins og t.d. Amazon, Google, Microsoft og Boeing.
– Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?
Eins og áður sagði er mikið um að vera í þessari borg um þessar mundir og húsnæðisverð hefur verið á hraðri uppleið. Hins vegar finnur maður vel fyrir því sem Íslendingur að öll neysluvara er á betra verði hér samanborið við heima. Tæki og tól eins og símar og tölvur eru mun ódýrari hér og bensín er miklu ódýrara hér. Algengt verð er í kringum $3 pr. gallon sem á gengi dagsins í dag er um 90 kr./ltr. Svo eru enn aðrir útgjaldaliðir sem eru mun hærri hér heldur en heima eins og t.d. læknakostnaður og skólagjöld. Sem dæmi má nefna að full skólagjöld fyrir hvern fjórðung Í fullu námi við verkfræðideildina mÍna (skólinn er með fjórðungakerfi en ekki annir og er hver fjórðungur um 10-11 vikur) eru um $11000 eða um 1.25 millj. kr.
– Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar? Mestu túristastaðirnir?
Frægasta kennileiti Seattle er óumdeilanlega Geimnálin. Hún gnæfir yfir miðbænum og er það fyrsta sem fólk hugsar um þegar borgin er nefnd. Pike Place markaðurinn niður við höfnina er einnig mjög frægur og þar er m.a. að finna fyrsta Starbucks staðinn. Einnig eru mörg skemmtileg söfn í borginni eins og t.d. EMP safnið þar sem farið er yfir ýmislegt í poppsögunni og ber þar hæst myndarlegt safn um Nirvana og Jimi Hendrix.
– Er einhver staður Í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða?
Þegar fólk hugsar um háar byggingar til að njóta útsýnis yfir Seattle hugsa allir um Geimnálina. Ég myndi hins vegar ráðleggja útsýnisþyrstu fólki að fara frekar í Columbia Center á 5th Avenue Í miðbænum. Sú bygging er mun hærri en nálin og er raunar næsthæsta byggingin á vesturströnd Bandaríkjanna. Þar er hægt að fara upp á 73. hæð á svokallað SkyView Observatory Deck þar sem hægt er að njóta ótrúlegs útsýnis fyrir mun lægra verð en að fara upp í Geimnálina.
– Uppáhalds veitingastaður/kaffihús Í borginni?
Ég ver mestu af mínum tíma á háskólasvæðinu og kaupi mest af mínu kaffi á Starbucks staðnum sem er rétt hjá byggingunni minni og líkar það bara mjög vel. Það er mikill fjöldi af alls kyns kaffihúsum og veitingastöðum út um allt sem vert er að prófa en ef ég ætti að gefa einum stað meðmæli þá væri það Thai Tom, pínulítill og sveittur tælenskur staður í nágrenni við háskólann. Það komast ca. 10 manns þangað inn í einu og þeir taka bara við greiðslum í reiðufé en ég myndi ganga á heimsenda fyrir Panang Curry réttinn þeirra.
– Kanntu tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku?
Tungumálið var ekki neinn sérstakur vegatálmi fyrir mig enda lærum við Íslendingar ensku nánast frá fæðingu nú orðið. Ég hef hins vegar fengið að kynnast ansi fjölbreyttum hreimum enda hef ég umgengist fólk hérna frá öllum heimshornum. Vinir mínir gera svo auðvitað góðlátlegt grín að mér fyrir hinn harða og sérstaka íslenska hreim sem ég ber með stolti.
– Varstu var/vör við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst? Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri íslensku?
Það er ýmislegt við Bandaríkin og Seattle borg sem er ansi frábrugðið Íslandi. Það sem kemur fyrst upp í hugann er hin gríðarlega menningarlega fjölbreytni sem er til staðar hér og sér í lagi á og í kringum háskólasvæðið. Frá því að ég flutti hingað hef ég kynnst fólki frá Norðurlöndunum, Mið-Austurlöndum, Kína, Indlandi, Mongólíu, Eþíópíu og fleiri stöðum og borðað mat frá öðrum eins fjölda menningarheima. Ég trúi því að það sé hverjum manni hollt að kynnast fólki frá sem flestum heimshornum. Maður lærir að í langflestum tilfellum þá er fólk bara fólk, sama hvaðan það kemur, og rétt eins og maður sjálfur á það drauma, markmið og uppáhalds mat. Annað sem ég lít á sem frábrugðið Íslandi eru stærðir á öllu og sérstaklega skammtastærðir á mat. Þegar þú hefur séð með eigin augum hvernig stór skammtur af frönskum lítur út í Bandaríkjunum er auðvelt að ímynda sér hvers vegna Bandaríkjamenn eru feitasta þjóð heims.
– Hvað einkennir heimamenn?
Heimamenn eru afskaplega indælt fólk, af reynslu minni að dæma, og sýna ókunnugi fólki áhuga. Hér er mikið talað um hið svokallaða Seattle Freeze sem lýsir sér þannig að fyrst um sinn eru borgarbúar mjög vinalegir og vilja allt fyrir mann gera en ef upp úr því sprettur ekki þeim mun nánara vinasamband þá hætta þeir öllum afskiptum af þér og „frysta“ þig þannig. Ég hef ekki upplifað þetta á eigin skinni og vel kann að vera að þetta sé bara þrautseig mýta. Fyrir mér eru Seattle-búar frjálslyndir í hugsun og mjög rólegir í tíðinni, mikið fyrir útivist og íþróttir og svo virðist sem annar hver maður hér eigi hund.
– Helstu kostir borgarinnar?
Einn af stærstu kostum borgarinnar er að þú getur farið frá iðandi stórborgarlífi yfir í stórkostlega náttúrufegurð á ótrúlegum gönguleiðum á innan við klukkutíma í bíl. Þetta er svolítið eins og ef Reykjavík væri umkringd af 20 Esjum og öðru eins af skíðasvæðum. Seattle er fræg fyrir miklar rigningar en mín upplifun er sú að það rigni svolítið hraustlega í um þrjá mánuði yfir háveturinn en annars sé veðrið yfirleitt með miklum ágætum. Verandi vanur íslenskum vindi þá finnst mér alltaf vera logn hérna þó heimamenn séu ekki alltaf sammála mér. Hér er sjaldan of heitt og aldrei of kalt. Ég myndi því segja að veðurfar væri stór kostur við Seattle.
– Helstu gallar borgarinnar?
Umferð í borginni er víðfræg fyrir að vera skelfileg. Að vera á I-5 hraðbrautinni á háannatíma er hreint ekki góð skemmtun. Ég á ekki bíl hérna og notast aðallega við almenningsamgöngur eins og strætisvagna og lestar og ég hef ekki lent í teljandi vandræðum með slíkt. Ef ég ætti einkabíl væri ég hins vegar ábyggilega orðinn vel pirraður á umferðinni.
– Gætirðu séð fyrir þér að setjast að til frambúðar í þessari borg?
Þó það sé ekki á döfinni að setjast hér að í augnablikinu þar sem að ég er að flytja heim eftir tæpa tvo mánuði þá er Seattle klárlega borg þar sem ég gæti hugsað mér að búa. Hér er allt til alls og borgin er að ganga í gegnum afskaplega áhugaverða tíma stútfulla af möguleikum fyrir ungt fólk. Maður finnur fyrir gríðarlegri samkeppni hérna enda til mikils að vinna fyrir fólk sem kemst í góð störf hjá fyrirtækjum eins og Amazon og Microsoft. Það er aldrei að vita nema maður flytji hingað út í framtíðinni ef að ævintýraþráin grípur mann, hver veit.
Sjá einnig: Borgin mín – París
UMMÆLI