Úrslit í Ritlistakeppni Ungskálda 2018 verða kunngjörð á Amtsbókasafninu á Akureyri fimmtudaginn 6. desember kl. 17.
Alls bárust 85 verk í keppnina sem er tvöfalt meira en í fyrra. Engar hömlur voru settar á hvers kyns textum væri skilað inn, hvorki varðandi efnistök né lengd. Þeir þurftu þó að vera á íslensku.
Þriggja manna dómnefnd hefur farið yfir verkin og tilkynnir úrslit ásamt umsögn á fimmtudaginn og hljóta þrjú efstu sætin viðurkenningar og peningaverðlaun. Verðlaunahafar lesa verk sín og boðið verður upp á tónlistaratriði, kakó og smákökur.
Ungskáld er verkefni á Akureyri sem miðar að því að efla ritlist og skapandi hugsun hjá ungu fólki á aldrinum 16-25 ára.
Verkefnið er hið eina sinnar tegundar á landinu.
Í nefnd Ungskálda eru fulltrúar frá Akureyrarstofu, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum á Akureyri, Ungmennahúsinu í Rósenborg og Amtsbókasafninu.
Verkefnið er styrkt af Sóknaráætlun Norðurlands eystra og Akureyrarbæ.
Mynd og frétt: akureyri.is
UMMÆLI