Veðurstofan hefur gefið út viðvörun fyrir stóran hluta landsins en afar slæmu veðri er spáð næstu tvo daga frá hádegi á morgun. Viðvörunin er vegna norðaustanhvassviðris sem er spáð um stóran hluta landsins með snjókomu að norðan og austan frá miðvikudegi til föstudags. Fólk á ferðinni er hvatt til þess að fylgjast vel með veðurspám næstu daga og viðvörunum. Búast má við því að samgöngur raskist vegna roks og snjókomu. ,,Ekki er gert ráð fyrir að veðrið gangi niður fyrr en á föstudag og því útlit fyrir að nóvember ætli að kveðja á vetrarlegur nótum. Þeir sem hyggja á ferðalög eru beðnir að fylgjast náið með fréttum af færð og veðri því viðbúið er að samgöngur muni spillast,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Hríðarveður á fjallvegum og lítið skyggni
Á Norðausturlandi er spáð vaxandi norðaustanátt, 13-20 m/s undir kvöld á morgun með hríðarveðri á fjallvegum og með köflum lítið skyggni. Samgöngutruflanir eru líklegar, samkvæmt Veðurstofu Íslands. Á Austurlandi að Glettingi tekur veðurviðvörunin gildi klukkan 15 á morgun en þar er spáð vaxandi norðaustanátt, 13-20 m/s undir kvöld, með hríðarveðri á fjallvegum og með köflum lítið skyggni. Samgöngutruflanir líklega. Viðvörunin tekur gildi á hádegi á morgun á Austfjörðum en þar er spáð norðaustan 13-18 m/s og talsverð snjókoma til fjalla. Samgöngutruflanir líklegar.
Svona hljómar veðurspáin fyrir Norðurland næstu daga:
Á miðvikudag:
Vaxandi norðaustanátt, 13-20 m/s síðdegis, en hvassari um kvöldið. Slydda eða snjókoma N- og A-lands, rigning á Austfjörðum og SA-lands, en annars þurrt að kalla. Vægt frost N- og V-til, annars 0 til 7 stiga hiti, mildast á SA-landi.
Á fimmtudag:
Hvöss norðaustanátt og snjókoma um landið N-vert, rigning eða slydda A-lands en annars úrkomulítið. Hiti breytist lítið.
Á föstudag:
Minnkandi norðanátt og snjókoma,en síðar él á N-verðu landinu, en lengst af úrkomulaust syðra. Frost um allt land.
Á laugardag, sunnudag og mánudag:
Breytileg átt, él og fremur kalt í veðri.
UMMÆLI