Næsta laugardag, 24. nóvember kl. 16, verður hin árlega jólaskemmtun á Ráðhústorginu. Þá taka Akureyringar formlega við jólatrénu sem vinabærinn Randers í Danmörku gefur þeim að venju og boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá fyrir bæði börn og fullorðna.
Lúðrasveit Akureyrar spilar jólalög og Barnakór Akureyrarkirkju syngur með dyggri aðstoð vaskra jólasveina sem koma kafrjóðir til byggða. Stjórnandi lúðrasveitarinnar er Sóley Einarsdóttir en Sigrún Magna Þórsteinsdóttir stjórnar kórnum og spilar undir. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, segir nokkur orð og Helgi Jóhannesson, konsúll Dana á Akureyri, afhendir okkur jólatréð formlega. Að því búnu ætlar Svala Sandgreen, 3ja ára, að tendra ljósin á trénu.
Loks munu jólasveinarnir syngja með áhorfendum og kannski gefa börnunum eitthvert góðgæti, hugsanlega mandarínur.
UMMÆLI