Landsliðsfyrirliðinn og Akureyringurinn Aron Einar Gunnarsson greindi frá því á Twitter í morgun að hann hygðist gefa út bók. Bókin heitir Sagan mín og kemur í verslanir 20. nóvember.
Það er Einari Lövdahl Gunnlaugsson sem skráir sögu Arons en í bókinni segir Aron lesendum söguna af því hvernig hann fór frá því að taka sín fyrstu skref með Þór á Akureyri í það leiða lið Íslands á lokakeppnum EM og HM.
„Ákvað að hnoða í eina bók um allt sem ég hef gengið í gegnum. Kemur út í kringum 20 nóvember og ég er hrikalega spenntur,“ skrifaði Aron með færslunni sem sjá má hér að neðan.
„Þetta er hugmynd sem ég hef verið með í maganum lengi. Ég byrjaði að skrifa hjá mér punkta og hugleiðingar í kringum EM-ævintýrið. Það var svo fyrir rúmu ári sem ég ákvað að láta verða af því að gefa út bók og vinna við hana hófst í byrjun þessa árs,“ segir Aron og bætir við;
„Ég hef að vissu leyti fullorðnast í sviðsljósinu en þrátt fyrir það hefur fólk kannski aldrei raunverulega fengið að kynnast mér, enda rista hefðbundin fótboltaviðtöl grunnt.“
Aron leiðir lesandann frá fyrstu skrefum á Akureyri og yfir á stærsta svið heims, þar sem hann glímdi við menn á borð við Ronaldo, Messi og Modrić í lokakeppnum EM og HM.
„Fólk hefur fylgst vel með landsliðinu og stutt dyggilega við bakið á okkur í ævintýri undanfarinna ára. Mig langaði til að opna dyrnar aðeins fyrir fólki og leyfa því að skyggnast bakvið tjöldin. Segja sögur sem hafa ekki fengið að heyrast áður opinberlega og leyfa fólki að upplifa þessi ævintýri með mínum augum,“ segir Aron.
Sigrarnir eru margir en Aron ræðir einnig opinskátt um þá ákvörðun að fórna því að vera viðstaddur fæðingu sonar síns, að verða skúrkur eftir ummæli í fréttaviðtali og líkamlegu og andlegu þrekraunirnar sem fylgja álaginu í boltanum.
„Ég fer yfir ýmis þekkt atvik á ferli mínum og í raun ákvað ég að skilja ekkert undan. Ég tala til dæmis um þá ákvörðun að missa af fæðingu sonar míns til að spila leik í undankeppni HM, en ég sé þá ákvörðun í allt öðru ljósi í dag en ég gerði þegar ég tók hana á sínum tíma. Og ég tala líka um hvernig það var að upplifa að verða skyndilega skúrkur meðal þjóðarinnar vegna ummæla sem ég lét falla fyrir landsleik gegn Albaníu. Það er í raun fjölmargt sem mig hefur langað til að koma frá mér og úr því er bókin samansett,“ segir Aron að lokum.
Ákvað að hnoða í eina bók um allt sem ég hef gengið í gegnum.. kemur út i kringum 20 nóvember og eg er hrikalega spenntur #saganmín pic.twitter.com/vGr21rxDNQ
— Aron Einar (@ronnimall) November 8, 2018