Rithöfundurinn og Akureyringurinn Sandra B. Clausen gefur nú út þriðju bókina í bókaseríunni Hjartablóð. Fyrsta bók seríunnar kom út fyrir tveimur árum, önnur bókin í fyrra og nú er þriðja bókin, Ferðin, komin út. Hjartablóð er ljósblá bókasería með sögulegu ívafi og höfundur lofar enn meiri hita og spennu í þeirri þriðju. Lesandi kynnist litríkum persónum sem allar binda vissar vonir og væntingar til lífsins. Hjartalag fólks hefur lítið breyst á 400 árum. Þó veruleikinn hafi í þá daga snúist meira um afkomu þá var ástin alltaf til staðar og hver einasta sál átti sína drauma um betra líf. Í átakanlegri sögu Hjartablóðs fylgjumst við með Smálandsfjölskyldunni í Laufskógum, ástum þeirra og örlögum.
Ferðin er þriðja bókin í seríunni Hjartablóð. Hún er sjálfstætt framhald Flóttans sem kom út í fyrra og við höldum áfram að fylgjast með lífi Magdalenu Ingvarsdóttir, aðalsögupersónu bókanna. Í þetta sinn leggur hún upp í för í átt að fyrri heimkynnum. Eftir langa dvöl á Íslandi er söknuður hennar til Svíþjóðar orðin óbærilegur. Á leið sinni til baka með viðkomu í Færeyjum kemst hún í kynni við hættulega einstaklinga sem svífast einskis í harðri lífsbaráttu á hafi úti. Magda ber sterka von um endurfundi við Ara, sinn heittelskaða mann og í þessari sögu fáum við að fylgjast með hvort hún fái ósk sína uppfyllta.
Ferðin er ívið lengri í samanburði við hinar tvær bækurnar. Ástæðan er sú að að í þeirri þriðju verður visst uppgjör milli persóna og farið dýpra í þá atburðarrás sem átti sér stað í fyrri bókunum. Mörg leyndarmál koma upp á yfirborðið og lesandi nær að kynnast hverri persónu betur. Hann fær að fylgjast með gleði og sorgum sem og feluleik með forboðnar ástir.
Spurð hvort framhaldið verði lengra á þessari ævintýralegu seríu segir Sandra að sagan gæti haldið endalaust áfram svo lengi sem fólk les eða hlustar.
Ferðin kemur út sem hljóðbók fyrir jólin hjá Storytel og seinna í búðir. Hjartablóð hefur fengið mikið lof á hljóðbókarmarkaðnum og hinar tvær, Fjötrar og Flóttinn, sátu á metsölulista síðasta sumar. Þeir sem bíða spenntir eftir Ferðinni munu loks getað svalað forvitni sinni um framhaldið hjá Magdalenu Ingvarsdóttir.
UMMÆLI