Föstudaginn 12. október sl. undirrituðu Árni Sverrisson, formaður Alzheimersamtakanna, og Halldór S. Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar, viljayfirlýsingu til að staðfesta og efla enn frekar samstarf Alzheimersamtakanna og ÖA. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Akureyrarbæjar.
Undanfarin ár hafa ÖA og Alzheimersamtökin unnið saman að ýmsum verkefnum á sviði almennrar fræðslu, ráðgjafar og stuðnings við einstaklinga með heilabilun og fjölskyldur þeirra, en viljayfirlýsingin staðfestir enn meira samstarf á þessu sviði.
Viljayfirlýsingin tekur til að mynda til áframhaldandi samstarfs um uppbyggingu náms og námskeiða fyrir almenning og fagfólk, samstarfs um að bjóða til samverustunda, Alzheimerkaffis og fræðslu- og hópastarfs líkt og hefur verið haldið í húsakynnum ÖA. Einnig er stefnt að samstarfi um að byggja upp á Akureyri ráðgjafarþjónustu sem sérhæfir sig í heilabilun en ráðgjafastofunni er ætlað að þjóna íbúum og starfsfólki á Norðurlandi.
UMMÆLI