Leikið var í þýsku Bundesligunni í handbolta í gær og var einn Akureyringur í eldlínunni. Arnór Þór Gunnarsson og félagar í Bergischer heimsóttu Göppingen og úr varð hörkuleikur.
Mikil meiðsli herja á leikmannahóp Bergischer þessa dagana og átti liðið erfitt uppdráttar framan af en staðan í leikhléi var 15-8 fyrir Göppingen.
Arnór Þór og félagar gáfust ekki upp og áttu frábæran síðari hálfleik þar sem þeim tókst að komast yfir skömmu fyrir leikslok en lokatölur urðu 26-26.
Markahæsti leikmaður leiksins var Arnór en hann skoraði átta mörk úr átta skotum. Hreint frábær skotnýting hjá Arnóri sem bar fyrirliðaband Bergischer í leiknum.
Bergischer situr í þrettánda sæti Bundesligunnar að sjö umferðum loknum en liðið er nú búið að spila þrjá leiki í röð án þess að tapa.
UMMÆLI