Flugfélag Íslands hefur tilkynnt að félagið hyggist hefja beint flug milli Keflavíkur og Akureyrar. Flogið verður allt árið um kring en áætlað er að fljúga 6 sinnum í viku.
Þetta eru mikil gleðitíðindi fyrir fólk búsett á Norðurlandi en mikið hagræði getur falist í því að fljúga beint til Keflavíkur í stað Reykjavíkur á leið erlendis. Einnig er gert ráð fyri því að flugið muni hafa jákvæð áhrif á ferðamannaiðnaðinn á Norðurlandi.
Í tilkynningu frá Flugfélagi Íslands segir Árni Gunnarsson, framkvæmdarstjóri að félagið hafi verið að skoða þennan möguleika í nokkurn tíma og ljóst sé að þetta muni auðvelda ferðamönnum enn frekar að ferðast áfram innanlands.
Eins og við greindum frá í gær þá hafa Siglfirðingar með Róbert Guðfinnsson í fararbroddi hug á því að stofna flugfélag til að auka straum ferðafólks norður í land. Áhugavert verður að sjá hvort að þetta útspil Flugfélags Íslands hafi áhrif á þau áform.
UMMÆLI