NTC

Akureyringar erlendis – Arnór Þór markahæstur

783960

Arnór Þór og félagar unnu mikilvægan sigur

Nokkrir akureyrskir atvinnumenn voru í eldlínunni í Evrópu um helgina, þó aðallega í þýska handboltanum.

Arnór Þór Gunnarsson var markahæstur í liði Bergischer þegar liðið vann mikilvægan sigur á Minden í þýsku Bundesligunni á laugardag. Arnór gerði fimm mörk úr sjö skotum í tveggja marka sigri Bergischer, 27-25.

Oddur Gretarsson skoraði eitt mark úr fimm skotum þegar lið hans, Emsdetten, tapaði á naumlegan hátt fyrir Ferndorf í þýsku B-deildinni á laugardag. Lokatölur 29-28 fyrir Ferndorf.

Sigtryggur Daði Rúnarsson komst ekki á blað þegar Aue tapaði fyrir Huttenberg í sömu deild á föstudag. Árni Þór Sigtryggsson var ekki í leikmannahópi Aue vegna meiðsla. Meiðsli Árna eru þó ekki alvarleg og reiknar hann með að vera klár í næsta leik liðsins.

Sá leikur er einmitt gegn Oddi og félögum í Emsdetten. Það verður því Akureyrarslagur næstkomandi föstudag í þýsku B-deildinni.

Haukur Heiðar Hauksson sat allan tímann á varamannabekknum þegar AIK vann 6-0 sigur á Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Hallgrímur Jónasson þurfti sömuleiðis að gera sér bekkinn að góðu þegar lið hans, Lyngby, vann enn einn 1-0 sigurinn í dönsku úrvalsdeildinni.

Landsliðsmennirnir Aron Einar Gunnarsson og Birkir Bjarnason voru báðir fjarri góðu gamni um helgina en þeir verða í eldlínunni með landsliðinu næstkomandi fimmtudag.

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó