Velferðarráðuneytið hafnar því að endurgreiða Akureyrarbæ hátt í milljarð króna vegna taps af rekstri öldrunarheimila. Þessu greindi Rúv frá í gær.
Bæjarstjórn krafði ráðuneytið um endurgreiðslu í febrúar vegna þeirra 843 milljóna króna sem bærinn græddi með rekstri öldrunarheimilanna Hlíð og Lögmannshlíð á árunum 2012-2016. Bæjaryfirvöld telja að ríkið hefði átt að endurgreiða þeim upphæðina þar sem ríkið bæri lögbundna ábyrgð á málaflokknum.
Akureyrarbær hefur nú fengið svar þar sem vísað er kröfunni á bug á þeim forsendum að stjórnendum hjúkrunarheimila sé falið að veita sem besta þjónustu fyrir þá fjármuni sem eru til ráðstöfunar hverju sinni. Það hafi verið ákvörðun bæjaryfirvalda að greiða með rekstrinum og því sé krafan ekki tekin gild. Þá kemur fram í frétt Rúv að áður en bæjaryfirvöld tóku að greiða með öldrunarheimilunum var rekstrarhalli hátt í tveir milljarðar á tímabilinu.
Daggjöld duga ekki fyrir rekstri Öldrunarheimilanna
Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrar, segir í samtali við Rúv að þetta séu mikil vonbrigði þar sem þau hafi talið sig vera að reka öldrunarheimili samkvæmt þeim kröfum ríkið leggur upp með. „Það er náttúrulega bara þannig að daggjöldin hafa ekki dugað fyrir rekstrinum og þess vegna höfum við þurft að leggja fjármuni með þessu. Og núna erum við bara að reyna að sækja á ríkið til að fá þetta óréttlæti greitt,“ segir Guðmundur Baldvin í samtali við Rúv.
Ef bærinn fær ekki endurgreitt er farið fram á að ríkið taki yfir rekstri heimilanna. Þó er það ekki það sem bæjarráð vill, heldur vilja þau halda rekstrinum áfram sjálf. Málið er í skoðun með lögmanni en ekki hefur verið ákveðið enn að höfða mál.
UMMÆLI