Systurfélag Samherja hf., Samherji Holding ehf., hefur keypt 25,3% hlut í Eimskipafélagi Íslands hf. Félagið keypti öll hlutabréf bandaríska fjárfestingasjóðsins Yucaipa í Eimskipum á um 11 milljarða íslenskra króna og á því núna rétt rúmlega fjórðung í fyrirtækinu. Samherji Holding ehf. er félag um erlenda starfsemi Samherja. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu félagsins.
„Eimskip er gamalgróið félag með trausta innviði, þrautreynt starfsfólk og góðan skipastól,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Hann segir að Samherji og Eimskip hafi á undanförnum árum víða verið með starfsemi á sömu svæðum. „Eimskip er alþjóðlegt flutningafyrirtæki sem byggir starfsemi sína á góðri þjónustu við viðskiptavini með rekstri skipaflota á Norður-Atlantshafi. Við þekkjum á margan hátt ágætlega til reksturs skipa og mikilvægi flutninga í alþjóðlegu umhverfi. Það verður krefjandi en um leið ánægjulegt að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu félagsins í góðu samstarfi við aðra hluthafa,“ segir Þorsteinn að lokum.
UMMÆLI