NTC

Verkir, terkir, táfýla, (verkir, perkir, skítalerkir)!

Inga Dagný Eydal skrifar:

Í dag ætla ég að skrifa um hvernig það er að lifa með langvinna verki. Það kostar ákveðinn skammt af hugrekki að birta slík skrif því að ég held að flestum þyki tilhugsunin um slíkt ákaflega óspennandi og jafnvel að verið sé að básúna um einhvern vesaldóm. Eða kannski eru þetta bara minir eigin fordómar gagnvart mínu ástandi og lífi,- einu sinni enn! Hópur þeirra sem hefur langvinna verki er ekki hávær enda margir á endurhæfingar eða örorkubótum og því fylgir skömm. Aumingjastimpillinn er vondur stimpill og óréttlátur í langflestum tilfellum.

Það væri hinsvegar fáránlegt að ætla að deila lífi sínu, tilfinningum og upplifunum og sleppa því að fjalla um það sem er svo stór hluti af tilverunni minni. Að læra að lifa með verkjunum (líkt og kvíðanum) og líta á þá sem óhjákvæmilega félaga mína og taka fullt tillit til þeirra. Ég þarf hvort eð er að skipuleggja lífið með það að markmiði að halda verkjunum niðri þannig að ég geti bæði hvílst og starfað að einhverju marki. Ég veit að ég deili þessu lífsmynstri með ótal mörgum öðrum og líklega eru stoðkerfisverkir ásamt geðrænum vanda ein helsta ástæða þess að fólk dettur af vinnumarkaði,- og oftast fer þetta saman. Það er jú kvíðavekjandi að vera með stanslausa verki og það veldur verkjum að vera í kvíðaástandi.

Ég hef psoriasisgigt, á íslensku sóragigt- sem er leiðindasjúkdómur, og ýmis fleiri stoðkerfisvandamál sem mér gekk þokkalega að lifa með fram að þeim tíma að ég veiktist af sjúklegri streitu/kulnun. Eftir það urðu verkirnir mínir mun verri og lítið má út af bera til að ég hætti að sofa fyrir þeim, og fátt bítur á nái þeir sér á annað borð á strik. Verkir sem stundum eru klárlega frá stífum og bólgnum vefjum en stundum eru þeir dulir og óljósir og fela orsök og uppruna. Mér gengur ekki vel að vera kyrr þar sem oftast er betra að iða og skipta sífellt um stellingar og það út af fyrir sig getur verið þreytandi, bæði fyrir mig og aðra. Mig langar oft að njóta meira en þjóta en það getur verið miklu auðveldara að þjóta þannig að verkirnir ruglist í ríminu og verði eftir. Sem þeir reyndar gera yfirleitt ekki.

Svo eru þessir félagar mínir þeirrar náttúru gæddir að laumast inn á sviðið þegar síst skyldi (ekki það að nærveru þeirra sé nokkurn tíma óskað). Þeir gefa mér oft leyfi til að taka nokkuð hressilega á því,- fara í gegnum álagstíma eða hreyfa mig aðeins meira en venjulega en svo kemur líka þakklætið,- verkjaástand sem rænir svefni og orku. Ég nota verkjalyf þegar ástandið er slæmt en reyni að halda því í skefjum þar sem ég hef alltof oft horft upp á þann vítahring sem getur skapast af slíkum lyfjum. Mörg önnur bjargráð eru auðvitað til og óspart notuð,- stundum er jafnvel bara best að skríða undir sæng og skæla smávegis. Það má.

Það er ekki allt slæmt við langvinna verki. Margar andvökustundir hafa gefið mér skemmtileg umhugsunarefni, ég hef lesið og ég hef skrifað. Verst er að liggja og hugsa um sársaukann, miklu betra að ulla á verkina og gera eitthvað annað þar til ástandið skánar.

Verkirnir mínir hafa líka gefið mér tækifæri til að lesa og fræðast um ýmsa áhugaverða hluti því þeir vekja forvitni um mannslíkamann og ekki hvað síst heilann, hugann og áhrif hans á taugakerfið. Mér sýnist að sjúklegur kvíði geti verið bæði orsök og afleiðing langvinna verkja og nauðsynlegt sé að sinna slíku á heildrænan hátt. Enn ein birtingarmynd þess hvernig líkamlegt og andlegt ástand verður ekki skilið að.

Verkirnir eru líka miskunsamir að því leyti að þegar þeir hverfa, þá gleymast þeir. Dagana sem þeir gefa frí þá er mjög auðvelt að ímynda sér að þeir hafi aldrei verið þarna eða í öllu falli að þeir muni aldrei koma aftur. Því er það svo afar auðvelt að hamast í alls konar brasi þann daginn og keyra vel yfir mörkin sín sem auðvitað endurvekur verkina. En þessir dagar eru eiginlega þess virði- því þá er gaman!

Að lokum,- ég veit vel að verkirnir eru ekki hættulegir út af fyrir sig og víst er ég þakklát því að hafa ekki alvarlegan sjúkdóm. En ég tala líklega fyrir munn margra þegar ég kalla eftir skilningi á ástandi sem rænir orku, hvíld og lífsgleði, án þess að sjást utan á viðkomandi. Ég lærði það í hjúkrunarnámi að verkir eru mat þess sem upplifir þá og enginn annar getur ákveðið hversu miklir verkirnir eru. Það er ekki svo einfalt að bíta bara á jaxlinn,- flestir með langvinna verki eru löngu búnir að naga niður alla jaxlana sína og þurfa mildi og skilning öðru fremur.

Megið þið eiga verkjalausan dag.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó