Jarðhitasvæðið við Hjalteyri hefur verið mikilvægasta vinnslusvæði Norðurorku síðastliðin 15 ár og gefur svæðið um 60% af hitaveituvatni Akureyringa. Um síðustu aldamót var jarðhitasvæðið kortlagt, m.a. með hitastigulsborunum, en kveikjan að leitinni var borun sjótökuholu vegna fiskeldis, sem þá var rekið á Hjalteyri.
Hjalteyrarsvæðið virkjað
Elsta vinnsluholan á svæðinu, HJ-19, var boruð sumarið 2002. Hún var vel heppnuð og sýndi að svæðið var jafnvel öflugra en menn höfðu þorað að vona. Annarri vinnsluholu, HJ-20, var bætt við í ársbyrun 2005 og var hún fyrst og fremst hugsuð sem varahola. Með vaxandi heitavatnsnotkun á þjónustusvæði Norðurorku undanfarin ár hefur þróunin hinsvegar orðið sú að báðar holurnar eru í notkun allan ársins hring. Því var orðið aðkallandi að bora eina vinnsluholu til viðbótar til að hafa ávallt varaholu tilbúna til að dæla úr kerfinu, ef t.d. dæla í annarri hinna holanna skyldi bila.
Nýjasta holan (HJ-21)
Þriðja vinnsluholan, HJ-21, var boruð nú í vor. Holan er óvenjuleg að því leyti að vinnsluhluti hennar er boraður með 12 ¼“ krónu en vinnsluhlutar HJ-19 og HJ-20 voru báðir boraðir með 8 ½“ krónu. Nýja holan er sem sagt mun víðari en hinar eldri.
HJ-21 var prófuð með svokölluðu blástursprófi sl. föstudag (15. júní). Niðurstöður prófsins sýna að holan er í mjög góðu sambandi við jarðhitakerfið og að vinnslustuðull hennar er með því hæsta sem sést hefur fyrir lághitaholu á Íslandi. Þetta er mjög markverður árangur og lofar góðu fyrir holuna. Niðurstöður langtímaprófana með dælu munu gefa ítarlegri upplýsingar um hegðun holunnar og svæðisins í heild. Vatnshiti svæðisins er í kringum 87°C.
Það var jarðborinn Sleipnir frá Jarðborunum sem fenginn var til að bora holu HJ-21, en sá bor hefur borað allar vinnsluholurnar á Hjalteyri. Borverkið gekk mjög vel en það hófst þann 6. maí og var lokið á 1.298 m dýpi þann 14. júní síðastliðinn.
Hluti af stærra verkefni
Borun HJ-21 er hluti af stærra verkefni sem innifelur meðal annars lagningu nýrrar aðveituæðar frá Hjalteyri ásamt bættri tengingu við bæjarkerfið. Eins og áður hefur komið fram í frétt hér á vefsíðu Norðurorku er nú í gangi vinna við 1. áfanga nýrrar aðveituæðar frá Hjalteyri og er gert ráð fyrir að honum ljúki í haust. Einnig þarf að byggja stærri dælustöð og eimskilju á Hjalteyri. Eldri frétt um lagningu nýrrar aðveituæðar má sjá hér.
Um stórt verkefni og mikla fjárfestingu er að ræða og verður verkið unnið í áföngum næstu árin. Verkefnið er hluti af langtíma áætlun Norðurorku til að tryggja Akureyri og nærsveitum heitt vatn til framtíðar.
UMMÆLI