NTC

Menntaskólanum á Akureyri slitið í 138. sinn

Menntaskólinn á Akureyri

Menntaskólanum á Akureyri verður slitið í 138. sinn í Íþróttahöllinni 17. júní klukkan 10.00. Húsið er opið gestum frá klukkan 9.00.

Skólameistari, Jón Már Héðinsson mun brautskrá 164 stúdenta. Við upphaf athafnarinnar leika Una Haraldsdóttir fráfarandi konsertmeistari á píanó, Sólrún Svava Kjartansdóttir á fiðlu og Rún Árnadóttir á selló, en á meðan gengið er í salinn leikur Birna Eyfjörð Þorsteinsdóttir nýr konsertmeistari skólans á píanó. Fulltrúar afmælisárganga munu flytja ávörp auk fulltrúa nýstúdenta. Þar er um að ræða fulltrúa 10 ára stúdenta, 25 ára, 40, 50, 60 og 70 ára stúdenta. Þá verða kvaddir þrír kennarar, sem lengi hafa starfað við skólann, Sigurður Ólafsson sem kennt hefur hér í 24 ár, Sigurður J. Bjarklind sem lét af störfum um síðustu áramót eftir 40 ára starf og Sverrir Páll Erlendsson, sem starfað hefur hér í 44 ár.

Að brautskráningu lokinni, um hádegisbil, verður haldið rakleitt í myndatöku í útiþrepunum við Möðruvelli. Á sama tíma og allt fram til klukkan 15.00 verður opið hús í skólanum og gestum boðið að þiggja léttar veitingar, skoða skólahúsin og sýningu á verkefnum nemenda, sem verður í kennslustofum á Hólum, og listaverk skólans, sem eru í öllum skólahúsunum. Nú hafa verið settar merkingar við nánast öll myndlistarverk í eigu skólans og þau eru um öll skólahúsin. Þá verður og opið upp á Suðurvistir í Gamla skóla, en þar er meðal annars svolítil sýning á gömlum kennslutækjum. Einnig verður Bókasafn skólans opið og þar verður eitt og annað að sjá, meðal annars gamlar Carminur.

Um kvöldið er Hátíðarveisla nýstúdenta og fjölskyldna þeirra í Íþróttahöllinni og þar verða skemmtiatriði úr röðum stúdentanna. Þar munu um 1100 manns sitja til borðs. Undir miðnætti hópast nýstúdentar í bæinn og dansa og syngja á Torginu en síðan verður dansað fram á nótt í höllinni við leik hljómsveitarinnar Í svörtum fötum.

Undirbúningur stúdentahátíðarinnar hefur staðið yfir undanfarið, en siðameistari er Anna Sigríður Davíðsdóttir. Umsjá hátíðarveislunnar um kvöldið er í höndum Eyrúnar Huldar Haraldsdóttur en Hafdís Inga Haraldsdóttir heldur utan um sýningu á verkefnum nemenda.

Sambíó

UMMÆLI