A! Gjörningahátíð

Abstrakt í Deiglunni


Listmálararnir Kristján Eldjárn og Ragnar Hólm leiða saman hesta sína á samsýningu í Deiglunni á Akureyri helgina 15.-17. júní nk. Báðir sýna þeir málverk sem eru abstrakt eða óhlutbundin að mestu eða öllu leyti en Ragnar sýnir að auki nokkrar nýjar vatnslitamyndir. Sýningin verður opnuð föstudaginn 15. júní kl. 17-19 og er einnig opin laugardaginn 16. júní og þjóðhátíðardaginn 17. júní frá kl. 14-17 báða dagana. Pálmi Gunnarsson og Kristján Edelstein leika tónlist af fingrum fram við opnun föstudaginn 15. júní.

Glíman við hið óhlutbundna í málverkinu getur verið snúin og allt frá því abstrakt málverkið kom fyrst fram, og vakti hneykslan margra, hafa efasemdarmenn haldið því fram að abstrakt sé krass sem hvaða barn sem er geti framkallað á strigann. Að halda slíku fram er ekki út í hött og má í því samhengi vitna til orða Pablos Picassos sem sagði að öll börn væru listamenn en það rjátlaðist í flestum tilvikum smám saman af þeim þegar þau yxu úr grasi.

„Þegar fólk eldist þá missir það gjarnan óbeislaðan sköpunarkraftinn og sker á tengslin við listamanninn í sjálfu sér,“ segir Kristján Eldjárn. „Listmálarinn þarf því að gefa sjálfum sér lausan tauminn og láta ímyndunaraflið taka völdin svo abstrakt málverkið verði einlægt og standi fyrir sínu sem listaverk. „Allt sem við getum ímyndað okkur er raunverulegt,“ er einnig haft eftir Picasso og það rammar e.t.v. inn hugmyndina um hið óhlutbundna.“

Kristján Eldjárn og Ragnar Hólm hafa fengist við myndlistina af fullum þunga síðustu árin og haldið fjölda einkasýninga, auk þess að taka þátt í samsýningum. Kristján hefur alla sína tíð einbeitt sér að óhlutbundnu málverki en Ragnar er líklega kunnastur fyrir vatnslitamyndir sínar.

„Vatnslitirnir eru kapituli út af fyrir sig en það er líka mjög verðugt að glíma við abstrakt málverkið,“ segir Ragnar Hólm. „Ég hef stundum haft abstrakt myndir með á sýningum mínum og alltaf fengið góð viðbrögð þótt yfirleitt sé það ekki sami hópurinn sem kann að meta akvarellurnar og abstraktið. Undanfarið hef ég verið að rýna í amerískan abstrakt expressjónisma, til dæmis verk eftir Perle Fine, Richerd Diebencorn, Carolyn Weir, Willem de Kooning og fleiri, og reynt að átta mig á því hvers vegna verkin þeirra ganga upp, ná að heilla. Þetta er að mörgu leyti mun meiri hausverkur og allt þyngra í vöfum en þegar unnið er með vatnsliti.“

Sýningin í Deiglunni á Akureyri verður sem áður segir opnuð föstudaginn 15. júní kl. 17-19 og verður einnig opin laugardaginn 16. júní og þjóðhátíðardaginn 17. júní, báða daga frá kl. 14-17.

VG

UMMÆLI

Sambíó