Sex nýjar söguvörður hafa verið settar upp á Oddeyri á Akureyri. Forsagan er sú að á 150 ára kaupstaðarafmæli Akureyrarbæjar árið 2012 var ákveðið að ráðast í gerð söguskilta í elstu bæjarhlutunum þar sem bæjarbúum og gestum, innlendum sem erlendum, væru kynnt brot úr sögu bæjarins í máli og myndum. Þessi skilti fengu nafnið „söguvörður“.
Söguvörðurnar hafa verið settar upp í nokkrum áföngum. Árið 2012 voru settar upp sex söguvörður í elsta bæjarhlutanum, á gömlu Akureyri í Innbænum, árið 2015 voru settar upp tvær söguvörður í Grímsey og þrjár söguvörður í miðbænum og nú í þessum áfanga bætast við sex nýjar söguvörður á Oddeyri.
Söguvörðurnar eru samstarfsverkefni Minjasafnsins á Akureyri, Akureyrarstofu og umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar en Norðurorka hefur frá upphafi verið helsti bakhjarl verkefnisins. Söguvörðurnar eru gjöf til Akureyringa og eru alfarið unnar heima í héraði. Minjasafnið lagði til gamlar ljósmyndir, Jón Hjaltason sagnfræðingur samdi texta, Teikn á lofti hefur séð um alla hönnun, smíði standanna hefur verið á höndum Útrásar og prentun var hjá Skiltagerð Norðurlands í Ólafsfirði.
UMMÆLI