Alls sóttu 2.160 manns um skólavist við Háskólann á Akureyri fyrir næsta skólaár, 2018-2019. Þetta eru um 30% fleiri umsóknir en árið áður en þá bárust 1615 umsóknir. Mest er aukningin í kennaradeild, eða 53%, og félagsvísindin eru fast á hælum hennar með 51% aukningu í umsóknum. 1.761 nemi hyggst hefja grunnnám í haust og 399 stefna á framhaldsnám.
„Við merkjum mikinn áhuga á sveigjanlegu námi því það námsform hentar fólki á landsbyggðinni þar sem það þurfa ekki að flytjast búferlum til að stunda námið. Það kemur hingað til Akureyrar í lotur og námsefnið er allt aðgengilegt á netinu,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.
Frá því að Háskólinn á Akureyri hóf fjarkennslu fyrir 20 árum hefur námsformið verið í stöðugri þróun. Skilin milli staðarnáms og fjarnáms verða sífellt ógreinilegri þar sem markmiðið er að allir nemendur séu hluti af sama námsumhverfinu, óháð staðsetningu, og hafi þannig sama aðgengi að námi við skólann.
„Við höfum nú í 2 ár haft verulegar áhyggjur af auknum nemendafjölda og undirfjármögnun háskólakerfisins. Þegar við sáum í hvað stefndi leituðum við beint til ráðuneytisins og hófum umræður um það hvernig þessari auknu eftirspurn verður mætt. Háskólaráð ályktaði að nú væri tækifæri fyrir stjórnvöld til að efla aðgengi að háskólanámi á öllu landinu. Á sama tíma er ljóst að ef auknum nemendafjölda fylgja ekki auknir fjármunir þarf að að grípa til almennra aðgangstakmarkana í nám við Háskólann á Akureyri, en við vonumst til þess að ekki þurfi að grípa til þess umfram það sem nú þegar er orðið í hjúkrunarfræði, sálfræði og lögreglufræði,“ bætir Eyjólfur Guðmundsson við.
Ártal | Heildarfjöldi umsókna |
2014 | 1054 |
2015 | 1281 |
2016 | 1189 |
2017 | 1615 |
2018 | 2160 |
UMMÆLI