NTC

Krufði fórnarlambið í heimahúsi í viðurvist morðingjans

Guðfinna Jónsdóttir fannst látin í Svartá við bæinn Svartárkot í Bárðardal. Hún var fertug að aldri og var vinnukona á bænum. Guðfinna hafði orðið ófrísk eftir mann að nafni Jón Sigurðsson sem var vinnumaður á öðrum bæ í nágrenninu. Jón var rúmlega tvítugur.

Tildrög málsins voru með þeim hætti að Guðfinna fékk leyfi húsmóðurinnar á bænum til að skreppa frá í stutta stund. Jón var þá nýlega farinn frá Svartárkoti eftir að hafa dvalist þar um nóttina. Ástæða fararinnar var fundur sem hún átti við Jón. Þegar ljóst var að Guðfinna myndi ekki skila sér heim á kristilegum tíma var farið að leita hennar. Fjölmennur hópur leitaði og bar leitin árangur þremur dögum síðar, þann 16. september 1891. Lík hennar fannst liggjandi á grúfu í ánni.

Líkið var flutt heim að bænum þar sem því var þegar komið fyrir í kistu. Grunsemdir voru uppi um að einhver hefði eitthvað á samviskunni og lét sýslumaður Benedikt Sveinsson, sem kominn var á vettvang, senda eftir héraðslækninum á Akureyri, Þorgrími Johnsen. Grunur beindist strax að hinum unga Jóni Sigurðssyni. Viku eftir að Guðfinna fannst látin kom Þorgrímur ríðandi að bænum og var hlutverk hans að kryfja líkið og komast til botns um hvað olli dauða Guðfinnu.

Þeim Benedikt og Þorgrími kom saman um að Jón skyldi verða viðstaddur krufninguna og var því sent eftir honum. Nú var allt til reiðu og sýslumaður afhenti Þorgrími líkið, þvegið og kistulagt. Var það síðan tekið upp úr kistunni, lagt á fjalir og líkskurðurinn framkvæmdur í viðurvist hins grunaða Jóns. Honum brá við því sem við honum blasti en sat þó hinn rólegasti á meðan krufningunni stóð. Öll þrjú hol líkamans voru opnuð, höfuð, brjóst og kviður. Niðurstaða héraðslæknis lá fyrir. Guðfinna dó köfnunardauða og hafði kafnað áður en hún féll í ána. Hún hafði því ekki drukknað eins og allt benti til á vettvangi atburðarins.

Sýslumaður fór nú ríðandi að þeim stað sem Guðfinna fannst og fann þar fótspor í jarðveginum. Hann stakk upp hnaus með sporinu, kom því haganlega fyrir í kassa og hafði með sér í Svartárkot. Hinn grunaði var beðinn um að afhenda skóna sem hann hafði klæðst daginn sem Guðfinna lést. Nú féllu öll vötn til Dýrafjarðar. Vinstri skór Jóns smellpassaði við fótsporið. Jón Sigurðsson var handtekinn, grunaður um morðið á Guðfinnu Jónsdóttur.

Jón játaði á sig morðið. Hann viðurkenndi að þegar hann kom að fundarstað þeirra Guðfinnu við ána hefði hún kastað á hann kveðju en hann hins vegar gengið upp að henni og látið til skarar skríða án þess að mæla orð. Hann tróð upp í hana vettlingum sínum og hélt fyrir vit hennar þar til hún hætti að anda. Hann henti líkinu í ána og reið aftur til vinnu.

Að játningu lokinni var Jón fluttur í varðhald til Húsavíkur. Þaðan var hann fluttur til fangavistar á Akureyri. Jón var dæmdur til dauða. Hann var síðar sendur til Kaupmannahafnar þar sem aftakan átti að fara fram. Heimildum ber þó ekki saman um hver örlög Jóns urðu eftir að hann kom til Kaupmannahafnar. Var dómnum framfylgt í Danmörku eða kom Jón kannski aftur til Íslands? Nánar um málið á heimasíðu Grenndargralsins.

Stokkhúsið í Kaupmannahöfn hýsti íslenska glæpamenn fram á 19. öld.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó