Handboltakappinn Guðmundur Hólmar Helgason mun yfirgefa Cesson Rennes í Frakklandi og ganga í raði West Wien í Austurríki fyrir næsta tímabil. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í morgun.
Guðmundur Hólmar sem hefur leikið með Cesseon Rennes frá árinu 2016 verður ekki eini Íslendingurinn sem leikur þar en með liðinu leika þeir Viggó Kristjánsson og Ólafur Bjarki Ragnarsson. Þjálfari liðsins er Hannes Jón Jónsson.
„Ég er mjög ánægður með að hafa krækt í Guðmund Hólmar. Hann er að mínu mati maðurinn sem mig hefur vantað til þess að stýra varnarleik okkar en eins er hann öflugur sóknarmaður,“ sagði Hannes Jón í samtali við Morgunblaðið í gær.
Akureyringurinn Guðmundur Hólmar gekk í raðir Cesson Rennes sumarið 2016 og samdi þá við liðið til tveggja ára. Hann hefur glímt við meiðsli á tímabilinu en hann var meðal annars hluti af íslenska landsliðinu sem fór á EM 2016.
Akureyringurinn Geir Guðmundsson, frændi Guðmundar Hólmars, leikur með Cesson Rennes en þeir frændur hafa leikið saman fyrir Akureyri, Val og Cesson. Geir skrifaði undir nýjan tveggja ára samning hjá Cesson fyrr á þessu ári og því munu leiðir þeirra skilja í haust.
UMMÆLI