NTC

The Color Run á Akureyri í júlí – „Fólk gjörsamlega tapar sér í gleðinni“

Frá hlaupinu 2017. Mynd: Ragnar Már


The Color Run hefur slegið rækilega í gegn hérlendis en það var í fyrsta skipti haldið á Akureyri síðastliðið sumar.
Í ár snýr litahlaupið aftur til Akureyrar og fer fram í miðbæ Akureyrar laugardaginn 7. júlí en á þriðja þúsund manns tók þátt í hlaupinu hér á Akureyri í fyrra. Við hjá Kaffinu settumst á kaffihús með honum Ragnari Má Vilhjálmssyni, framkvæmdastjóra litahlaupsins og ræddum aðeins við hann um atburðinn.

Markmið hlaupsins er fyrst og fremst að skemmta sér og sameina fjölskyldur og vini á góðri stund. Á hverju ári hefur verið ákveðið þema í hlaupinu. Í fyrra var draumaþema en í ár verður ofurhetjuþema í öllum Color Run hlaupum í heiminum og hefur þemað slegið rækilega í gegn erlendis það sem af er ári og hafa þátttakendur verið að mæta í búning og með grímur í hlaupið. Viðburðurinn er gífurlega vinsæll um heim allan og er þetta sögð vera stærsta viðburðasería í heimi, með hlaup í nálægt 300 borgum í 50 löndum víðsvegar um heiminn á þessu ári.” segir Ragnar.

En hvernig byrjaði þetta? Hver er saga viðburðarins?

Hugmyndina átti Bandaríkjamaður að nafni Travis Snyder og kom hann þessu hlaupi á laggirnar til að hvetja bæði atvinnu- og áhugahlaupara til að hlaupa saman. Sjálfur var hann leiður á því að hvorki fjölskylda hans né vinir höfðu áhuga á að taka þátt í hans áhugamáli og því bjó hann til hlaup sem höfðar bæði til hlaupara og þá sem ekki hafa gert mikið af því að hlaupa. Þar kemur litapúðrið til sögunnar sem á rætur sínar að rekja til Holi þakkargjörðarhátíðarinnar í Indlandi. Hlaupið er þannig að á eins kílómetra fresti er farið í gegnum svokallað litasvæði eða litahlið þar sem litapúðri er dreift yfir þátttakendur, fyrst bláu, síðan grænu, þá gulu og loks bleiku litapúðri. Við endamark hlaupsins er síðan heilmikið litapartý með góðri tónlist þar sem að litasprengjur eru framkvæmdar á ca. 10 mínútna fresti og það er þar sem að viðburðurinn nær hámarki sínu.”

En hvernig verður dagskráin í ár? Eru ennþá lausir miðar í hlaupið?

Hlaupið á Akureyri verður í brekkunni sunnan við Akureyrarvöll en þar hefst hlaupið og endar sömuleiðis. Upphitunin byrjar klukkan 15:00 en þar koma þátttakendur sér í gír við skemmtilega tónlist og ræst verður í hlaupið klukkan 16:00. Hlaupið verður frá Hólabraut í átt að Ráðhústorginu, gegnum Skipagötuna, lítillega upp Kaupvangsstrætið, inn Hafnarstrætið, framhjá Leikfélagi Akureyrar og þaðan sem leið liggur að Aðalstræti til móts við skautasvellið. Síðan er hlaupin sama leið til baka en alls er hlaupið 5 km vegalengd, ef fólk ákveður að hlaupa en það er þó ekkert skilyrði. Fólk getur hlaupið, skokkað eða labbað því það er engin tímataka. Fólk á bara að njóta þess að vera eins lengi á leiðinni og hægt er. Miðasala fer fram á tix.is og vakin er athygli á því að til 11.júní er 15% afsláttur af miðum svo það er um að gera að nýta sér þann afslátt og skella sér á þessa frábæru skemmtun með alla fjölskylduna.

En er eitthvað sem þarf að hafa í huga?

Tveimur dögum fyrir hlaup verður hægt að nálgast hlaupagögnin, þ.e., hlaupanúmer, bol, litapoka o.fl. Einnig verður hægt að kaupa Color Run varning sem gaman er að eiga og nota í hlaupinu, svo sem skikkjur í stíl við þemað í ár, sólgleraugu, bakpoka, armbönd og sokka svo eitthvað sé nefnt,” segir Ragnar.

Eftir skemmtilegt spjall við Ragnar minnti hann okkur á að lokum að það skemmtilegasta við þetta væri hvað fólk skemmti sér vel saman. Fólk gjörsamlega tapar sér í gleðinni, það er varla hægt að lýsa þessari stemmingu sem myndast. Eftirpartýið, litarbomburnar, allir litaðir og glaðir að dansa. Og svo er auðvitað viðburðurinn alveg áfengis- og vímuefnalaus. Þetta er fjölskylduskemmtun eins og hún gerist best.“

Við skulum láta myndirnar tala fyrir sig og hlökkum til að taka þátt í The Color Run!

 

Sambíó

UMMÆLI