A! Gjörningahátíð

Ræstimiðstöð SAk hlaut hvatningarverðlaunin 2018

Starfsmenn ræstimiðstöðvar SAk stilltu sér upp til myndatöku í síðustu viku en á myndina vantar starfsmenn ræstimiðstöðvarinnar á Kristnesspítala. Mynd: BB.

Ræstimiðstöð Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) hlaut hvatningarverðlaun sjúkrahússins fyrir árið 2018 en verðlaun voru afhent á ársfundi þess sem haldinn var miðvikudaginn 9. maí sl.

Framkvæmdastjórn Sjúkrahússins á Akureyri hefur árlega frá 2011 veitt þeirri deild hvatningarverðlaun sem að mati framkvæmdastjórnar sýnir gott fordæmi um framsækni í störfum sínum eða skarar fram úr á annan hátt. Við veitingu hvatningarverðlaunanna er horft til ýmissa þátta sem hafa áhrif á starfsemi sjúkrahússins og gefur tilefni til jákvæðrar endurgjafar og eftirbreytni.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra afhendir Erlu Sigurgeirsdóttur, forstöðumanni ræstimiðstöðvar SAk og tveimur samstarfskonum hennar, hvatningarverðlaunin á ársfundinum. Mynd: BB.

Afar mikilvægur hlekkur í þjónustunni
„Það þarf varla að taka það fram hversu mikilvægt er á sjúkrahúsi að umhverfið sé hreint og snyrtilegt, bæði með tilliti til sýkingarhættu og starfsumhverfis. Þeir sem sjá um ræstingar eru því afar mikilvægur hlekkur í þjónustu við sjúklinga okkar og aðstandendur og einnig svo starfsfólkið vinni í góðu starfsumhverfi,“ sagði Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á SAk, þegar hann tilkynnti á ársfundinum hvaða deild hlyti verðlaunin.

„Þetta eru ekki auðveld störf og starfsfólk ræstimiðstöðvar þarf oft að aðlaga sig og vinna meðfram klínískri starfsemi,“ sagði hann.

Vel að verðlaununum komin

„Við tökum á móti mörgum gestum á sjúkrahúsinu, innlendum sem erlendum, og fáum ósjaldan að heyra hversu hreint og snyrtilegt sjúkrahúsið er,“ sagði Sigurður. Hann gat þess einnig að starfsfólk SAk hefði oft á orði hversu vel gengi að vinna með starfsfólki ræstimiðstöðvarinnar og að þjónusta þess væri til fyrirmyndar.

„Ræstimiðstöðin er því vel að verðlaununum komin og þau verða starfsfólki hennar örugglega hvatning áfram til góðra starfa,“ sagði Sigurður.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra afhenti Ræstimiðstöðinni verðlaunin á ársfundinum við dynjandi lófatak fundargesta.

VG

UMMÆLI

Sambíó