Ég er fædd og uppalin í Reykjavík og bjó lengst af í Seljahverfinu í Breiðholti. Á hverjum páskum fórum við fjölskyldan norður að heimsækja afa og ömmu og alla ættingjana en mamma er Akureyringur í húð og hár og lengst af bjó föðurbróðir minn á Akureyri með sína fjölskyldu. Á sumrin var stefnan líka tekin norður og í minningunni eyddi ég mestum tíma í „skóginum“ fyrir ofan hús ömmu og afa í Hafnarstrætinu, og að borða franskar með Björgu frænku minni á Súlnabergi. Ég á líka góðar minningar af doppóttum og framandi mjólkurfernum og endalausu bakkelsi úr Kristjánsbakaríi en þar vann amma mín lengst af.
Eftir stúdentspróf fór ég til Frakklands og svo til Ítalíu þar sem ég bjó í þrjú ár. Þar kynntist ég yndislegum og myndarlegum Akureyringi sem mér tókst síðar að véla í hjónaband. Árið 1995 fluttum við til Akureyrar með dóttur okkar litla og 1996 fluttum við til Danmerkur og vorum þar í fimm ár. Þegar kom að því að flytja heim, og börnin orðin tvö, kom aldrei annað til greina en að flytja til Akureyrar. Ég fékk fljótlega vinnu sem safnstjóri í Nonnahúsi sem var hálft starf og stuttu síðar fékk ég hálft starf hjá Neytendasamtökunum. Ég hætti í Nonnahúsi 2008 og skaust á þing í eitt kjörtímabil. Nú er ég aftur komin til Neytendasamtakanna og er stolt af því að samtökin, sem þurfa vissulega að horfa í hverja krónu, skuli samt sem áður vera með útibú á landsbyggðinni. Ég þekki það af eigin raun að fólk þarf ekki endilega að horfast í augu á vinnustaðnum til að samvinna gangi vel og held að það séu ótal tækifæri til að fjölga sérhæfðum störfum á landsbyggðinni með því að bjóða upp á störf án staðsetningar.
Ég hef átt góð samskipti við alla bæjarfulltrúa Akureyrar á síðustu árum og er stolt af því hvað bæjarfulltrúarnir okkar vinna vel saman þvert á flokka. Slíkt er ekki sjálfgefið. Ég tel að L-listinn hafi að mörgu leyti lagt grunninn að breyttum og betri vinnubrögðum þegar hann náði meirihluta árið 2010. Það er margt vel gert á Akureyri en það má alltaf gera betur og ég treysti L-listanum best til þess.
,,Hér er best að búa“.
Brynhildur Pétursdóttir skipar 10. sæti L – listans fyrir bæjarstjórnarkosningar á Akureyri.
UMMÆLI