Þetta er mín saga – Hver er þín saga? – Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir

Eftir að hafa alist upp til skiptis í Borgarnesi og í Noregi fram að 18 ára aldri, æft nokkrar vel valdar íþróttir og stundað tónlistarnám, lá leiðin í höfuðborgina til að klára stúdentspróf og í kjölfarið kennaranám. Með reynslu af búsetu erlendis í farteskinu, sá ég fyrir mér að kanna heiminn frekar að loknu kennaranámi, en stundum breytast plönin hratt og fyrr en varði var ég flutt norður í land og búin að stofna fjölskyldu.

Húsavík varð fyrir valinu í fyrstu umferð en Akureyri togaði sterkt í litlu fjölskylduna. Þrátt fyrir að vera ættuð úr Skagafirði þekkti ég lítið til á þessum stöðum hér fyrir norðan, en það var eitthvað við Akureyri sem hafði alltaf heillað mig. Hæfilega stór bær, eitthvað svolítið norskt við umhverfið og allt til alls en ekkert of mikið af því.

Ég var auðvitað búin að heyra þennan hefðbundna frasa um að erfitt væri að kynnast Akureyringum en ég var viss um að ég gæti sjálf stjórnað býsna miklu þar um. Og sú varð raunin. Oddeyrarskóli varð minn fyrsti vinnustaður á Akureyri og þar var tekið gríðarlega vel á móti mér. Við tóku mörg góð ár á þeim vinnustað og síðar hjá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Ég fór í framhaldsnám við HA og lagði mig jafnframt fram um að taka þátt í félagsstörfum. Ég kynntist skemmtilegu fólki hvar sem ég kom og eignaðist dýrmæta vini. Börnunum fjölgaði og fjölskyldan breyttist svo er við foreldrar þeirra slitum samvistum fyrir tíu árum síðan.

Það þarf einstakan stað til að halda í konu með þrjú börn sem á alla sína fjölskyldu í öðrum landsfjórðungi. Akureyri er einmitt einstakur staður og þrátt fyrir reglulegar vangaveltur um flutninga nær fjölskyldunni þá er hreinlega ekki hægt að yfirgefa þennan bæ.

Börnin mín eru Akureyringar og hér hafa þau alist upp við frábærar aðstæður til að stunda íþróttir og tómstundir, mikið öryggi og vinalegt umhverfi. Í bænum er fjölbreytt og góð þjónusta, mjög gott sjúkrahús, öflugar menntastofnanir á öllum skólastigum, örstutt í allt – meira að segja á skíði, útivistarparadís hvert sem litið er og metnaður í umhverfismálum sem og mörgum öðrum málaflokkum, nokkuð sem gerir bæinn að góðum búsetukosti. Sem sagt allt til alls en ekki of mikið af því. Eftir tæplega tuttugu ár á Akureyri ætla ég að vera svo hugrökk að kalla mig Akureyring. Hér líður mér vel og sú ró, yfirvegun og fegurð sem einkennir bæinn og bæjarbúa er gulls ígildi.

Með þann áhuga á samfélagsmálum sem ég hef og víðtæka reynslu af fjölbreyttum störfum, langar mig að leggja mitt af mörkum til að vinna að hagsmunum allra bæjarbúa svo Akureyri verði áfram besti staðurinn til að búa á. Þess vegna er ég á L-listanum, umvafin kraftmiklu og metnaðarfullu fólki.

Hér er best að búa“.

Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir skipar 14. sæti á L-listanum

VG

UMMÆLI