Framsókn

Samfélagið er verkefni okkar allra

Það er góður mælikvarði á samfélög hvernig þau hlúa að þeim sem standa höllum fæti. Það er löngu tímabært að horfast í augu við það skakka gildismat að meta hagsæld og lífsgæði eingöngu út frá efnahagslegum mælistikum. Þá hefur sýnt sig að tölur má toga og teygja til að fá einhliða mynd. Nærtækasta dæmið er hvernig meðaltekjur er stanslaust blásnar upp. Meðaltöl sýna þó ekki alltaf rétta mynd.

Hagsæld er meira en peningar. Við verðum að líta til þátta eins og vellíðan, heilbrigði, samfélagslegrar þátttöku og virðingu fyrir hvert fyrir öðru.

Hvernig getum við snúið þessu við? Sveitarfélögin geta að sjálfsögðu eingöngu gert það sem sem er innan þeirra verksviðs, en það er samt heilmikið sem við getum gert. Hér að neðan tökum við fyrir örfá atriði sem sveitarfélagið hefur á sinni könnu eða ætti að hafa.

Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er lögbundin framfærsla þeirra sem ekki geta framfleytt sér sjálfir af einhverjum orsökum. Hún þarf að vera nægileg til að fólk geti lifað með reisn. Mannhelgi verður alltaf að vera í forgrunni þegar fólk þarf að stíga oft á tíðum þungbær skref til að sækja sér aðstoð. Það er mikilvægt að þegar það á við, að hjálpa fólki til sjálfshjálpar og finna úrræði til að mæta einstaklingnum þar sem hann er staddur.

Það á enginn að þurfa að neita sér um menntun vegna fátækar. Eitt úrræði til að sporna gegn því ætti að vera menntunaraðstoð, skilyrðislaus framfærsla fyrir ungmenni sem ekki koma úr þannig aðstæðum að þau geti greitt sjálf fyrir skólagöngu sína í framhaldskóla. Þetta er liður í að rjúfa vítahring fátæktar og félagslegrar einangrunar sem oft bíður ungmenna sem ekki hafa sömu tækifæri og jafnaldrar þeirra og leiðir til stéttaskiptingar. Sveitarfélögin ættu í raun að hafa í forgangi að finna þessi ungmenni og bjóða þeim aðstoð, því oft er fólk orðið svo vonlaust og einangrað í sínum aðstæðum að það sækir sér ekki hjálp af eigin hvötum.

Húsnæði er grunnþörf. Staðan í dag er ólíðandi. Langir biðlistar eru eftir félagslegu húsnæði og leita þarf allra leiða til að eyða þeim. . Einnig þarf að sjá til þess að fólk sem á rétt á aðstoð sé ekki látið velkjast um í kerfinu árum saman án úrlausnar

Í þessu tilliti þarf að skoða hvernig eignasafn sveitarfélagsins er samsett og endurskoða eftir þörfum með tilliti til samsetningar biðlista hverju sinni.

Einnig þarf að finna skammtímalausnir fyrir þá sem eru heimilislausir nú þegar meðan unnið er að langtímalausnum.

Við viljum nota ‘húsnæði fyrst’ ( “Housing First”) aðferðina í samblandi við mannúðlega nálgun gagnvart fólki sem glímir við fíknisjúkdóm og/eða fjölþættan vanda og beita skaðaminnkandi aðgerðum. Það er afskaplega dýrt fyrir samfélagið og nærumhverfið að þessum málaflokki sé ekki sinnt og né reynt að ná til þeirra einstaklinga sem eru í þessum hóp. Þetta fólk á líka skilið hjálp, ekki bara fjárhagsleg markmið.

Þegar fólk er í þeirri stöðu að vera fátækt, þá lendir það oft í vanskilum. Forgangurinn er matur og húsnæði en aðrir reikningar sitja á hakanum svo sem gjöld fyrir dagvistun og skólafrístund barna. Við viljum að bæjarfélagið beiti mannúðlegum aðferðum við innheimtu og bjóði fólki aðstoð og stuðning við að koma sínum fjármálum á réttan kjöl. Einnig viljum við að innheimta sveitarfélagsins verði mannúðleg og hætt verði að nota þriðja aðila við innheimtu.

Almennt viljum við auka virkni fólks í samfélaginu og gera það sýnilegt. Við höfum rekið okkur á í samtölum við fólk, að margir öryrkjar og eldri borgarar sem nánast eingöngu hafa strípaðar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins, lokast inni í fátæktargildru. Það er ekki á okkar færi að lagfæra hluti sem eru á könnu ríkisins en við getum skoðað hvað hægt er að gera á heimavelli. Ein af afleiðingum fátæktar er skert þátttaka í félagsstarfi. Það sem við leggjum til er að komið verði upp tómstundakort fyrir þessa hópa, til að auðvelda þeim þátttöku og viðhalda félagslegum tengslum. Það myndi breyta miklu fyrir þessa hópa sem ekki eiga lengur rétt á endurgreiðslu frá stéttarfélögum að geta fengið aðstoð til að stunda áhugamál og halda virkni.

Nú spyrja menn eflaust hver eigi að borga þetta? Svarið er einfalt, við öll eigum að gera það. Það hagnast samfélaginu að allir geti tekið þátt. Ekki neitt af þessu er ókeypis og verður ekki komið á með einu pennastriki en þetta eru markmið til að vinna að. Gott samfélag er metnaðarfullt og sameiginlegt verkefni okkar allra. Með aukinni virkni í samfélaginu eykst efnahagsleg hagsæld líka. Það á að vera gott fyrir alla að búa í sveitarfélaginu, ekki bara þá sem hafa nóg að bíta og brenna. Það er hvergi gott að búa ef þú er fátækur og einangraður. Sá veruleiki er bara veruleiki ansi margra sem berjast í bökkum við að framfleyta sér og sínum. Gerum Akureyri að góðum stað fyrir alla sama hvaðan þeir koma fjárhagslega, það skilar betra samfélagi og betri líðan allra.

Píratakveðjur

Halldór Arason

Guðrún Ágústa Þórdísardóttir

Höfundar skipa fyrstu tvö sæti á lista Pírata á Akureyri fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó