Þetta er mín saga – Hver er þín saga?

Anna Hildur Guðmundsdóttir skrifar

Mín saga, er sú að ég eyddi nokkrum árum í það að reyna að komast í burtu frá Akureyri. Það tókst og ég fór í burtu í næstum áratug, en svo bauðst mér staða í mínum heimabæ árið 2008 og ég tók henni. Ég sé ekki eftir því og núna vil ég hvergi annars staðar vera.

Í 8 ár þá flaug ég til Reykjavíkur einu sinni í viku til að vinna og það besta við það var að lenda aftur á Akureyrarflugvelli að kvöldi dags og keyra Drottningarbrautina heim aftur.

Mér er minnisstætt að dóttir mín sagði stuttu eftir að við fluttum norður, mamma við erum alltaf að gera eitthvað skemmtilegt eftir að við fluttum til Akureyrar. Og það er rétt. Við erum miklu duglegri að gera allskonar hluti, fara í fjallið, í sund og stunda allskonar útivist, fara á kaffihús eða bara eiga góðar samverustundir. Það er frábært að hafa allt til alls.

Ástæðan fyrir því að ég tók ákvörðun um að taka þátt í pólitík árið 2010 var sú að breytingar þurfti í samfélagið, þetta er rétt eftir hrunið mikla og margir óánægðir í samfélaginu. Við vorum hundleið á gömlu fjórflokkunum, það byggðist einhvern veginn allt á því að þú þurftir að þekkja „rétta“ fólkið og vera á „rétta“ staðnum til að eitthvað gerðist hjá þér eða í þínum málum.

L-listinn hlaut hreinan meirihluta og tók til við að breyta mjög miklu. Síðustu 8 ár hafa einkennst af mjög mikilli samvinnu og samtali milli þeirra sem taka þátt í bæjarpólitíkinni. Það gerist ekkert ef það er stöðugt verið að rífast og tala niður til fólks, af því einhver heldur að hann hafi rétt fyrir sér.

Við erum öll að vinna að hag allra bæjarbúa, það er bara ekki alltaf hægt að gera allt sem okkur langar til að gera. Það er bara til ákveðinn pottur af peningum og honum er skipt niður á málaflokka. Ef einhver vill meira þá er einhver annar sem fær minna. Þannig að við þurfum að tala saman um hvernig ætlum við að gera þetta svo að sem flestir njóti góðs af. Við tökumst alveg á í nefndunum, en alltaf er reynt að tala okkur saman um niðurstöður þannig að bæjarbúir njóti góðs af. Þess vegna er líka svo frábært hve ólík við erum.

En við viljum öll allt það besta fyrir okkar bæjarfélag. Þetta finnst mér hafa tekist vel til í okkar bæjarfélagi. Við ræðum saman, við öskrum ekki á hvort annað né segjum miður skemmtilega hluti um hvort annað. Ég hef reynt að kenna dætrum mínum það að vera góð manneskja skiptir öllu máli. Það skiptir ekki máli hver maður er eða hvaðan maður kemur. Við eigum öll sama rétt, skiptir ekki máli hvort ég þekki einhvern sem þekkir einhvern sem þekkir einhvern sem getur reddað þessu fyrir mig. Við eigum öll að hafa jafnan rétt. Þess vegna hefur verið reynt undanfarin 8 ár að laga til í kerfinu og gera það einfaldara og skilvirknilega. Einfalda boðleiðir, umsóknarferli, hafa yfirlit yfir hvar er hægt að sækja um hitt og þetta, gera umhverfið einfaldara fyrir íbúann.

Fyrir mér er þetta ekki spurning um meirihluta og minnihluta. Þetta er fólkið sem við völdum til að vinna að málefnum allra bæjarbúa.Okkur ber skylda til að haga okkur eins og fullorðið fólk og það finnst mér við hafa gert. Mér finnst leiðinlegt að fylgjast með landsbyggðarmálunum, því þau gera ekki annað en að tala niður til hvors annars og gera lítið úr hugmyndum hvors annars. Þetta eiga ekki að vera átök, þetta á vera samvinna og samtal og það hefur verið stefna L-listans undanfarin átta ár.

Það er talað um að bæjarpólitíkin á Akureyri sé leiðinleg, og það séu engin átök í gangi og engin ágreiningu okkar á milli. Mér finnst það frábært, fyrir mér þýðir það að okkur hefur tekist vel til. Við erum í stöðugu samtali um hvað við teljum best fyrir bæinn okkar, með heildina í fyrirrúmi.

Ég mun því halda áfram að treysta L-listanum til að leiða það samstarf að við höldum áfram að tala saman og vinna saman fyrir Akureyri, öll sem eitt.

Anna Hildur Guðmundsdóttir skipar 8. sæti L-listans

VG

UMMÆLI