Tæplega 4.700 manns nýttu sér þjónustu SÍMEY á árinu 2017 og hafa aldrei verið fleiri. Til samanburðar nýttu 3.500 manns sér þjónustu SÍMEY á árinu 2016. Rúmlega 3.900 manns sátu námskeið hjá SÍMEY á árinu samanborið við um 2.700 manns árið 2016. Þetta kom m.a. fram á ársfundi SÍMEY fyrir árið 2017 sem haldinn var í upphafi maí mánaðar í húsakynnum SÍMEY við Þórsstíg.
Fram kom í máli Örnu Jakobínu Björnsdóttur, stjórnarformanns SÍMEY, og Valgeirs B. Magnússonar, framkvæmdastjóra SÍMEY, að almennt hafi starfssemi SÍMEY gengið vel á árinu 2017. Vöxtur hafi verið í starfseminni og reksturinn hafi gengið vel. Rekstrartekjur ársins námu 229 milljónum, samanborið við 217 milljónir árið 2016. Hagnaður án fjármagnstekna var um 6 milljónir króna en með fjármagnstekjum um 9 milljónir króna. Árið 2016 var hagnaður af rekstri SÍMEY 3,9 milljónir króna. Heildareignir SÍMEY námu í árslok 134 milljónum króna og eigið fé var 102 milljónir króna.
Arna Jakobína Björnsdóttir stjórnarformaður SÍMEY sagði á aðalfundinum í dag að stóra breytingin í starfsemi SÍMEY síðustu ár væri sú að dregið hafi úr aðsókn í bóklegt nám en á móti hafi aukin áhersla verið lögð á starfstengt nám og nám í skapandi greinum. Þá sagði hún að samstarf við atvinnulífið hafi aukist verulega sem aftur hafi skilað sér í fjölgun fólks sem hafi nýtt sér þjónustu SÍMEY.
Arna Jakobína nefndi að nú stæði yfir endurskoðun á lögum um framhaldsfræðslu fullorðinna og væri hún í höndum menntamálaráðuneytisins en margir kæmu að því verki, m.a. Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY. Hún upplýsti að nýverið hafi fulltrúar ráðuneytisins verið á Akureyri til þess að afla upplýsinga og heyra sjónarmið fólks sem tengdist fullorðinsfræðslunni.
Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, fór vítt og breitt yfir starfsemina á liðnu ári og kynnti ársreikning fyrir 2017. Hann sagði að til marks um mikinn vöxt í starfseminni á undanförnum árum hafi tæplega eitt þúsund manns sótt nám í SÍMEY árið 2009 en tæplega fjögur þúsund manns á síðasta ári. Valgeir sagði þá breytingu greinilega að vinsældir lengra bóklegs náms hafi minnkað en fólk sækti í auknum mæli í styttra nám.
Valgeir gerði að umtalsefni aukna þörf fyrir íslenskukennslu fyrir útlendinga. Hann sagði að þetta væri áberandi í starfi SÍMEY eins og hjá öðrum símenntunarstöðvum landsins. Til þess að bregðast við aukinni spurn eftir íslenskunámskeiðum fyrir útlendinga yrði að koma til aukið fjármagn.
UMMÆLI