Snæfríður gefur út tvær bækur í vor

Snæfríður ásamt fjölskyldu sinni í húsi sem þau dvöldu i á Tenerife síðustu jól í gegnum íbúðaskipti

Fjölmiðlakonan og Akureyringurinn Snæfríður Ingadóttir gefur út tvær bækur í vor.  Önnur bókin sem fjallar um Íbúðaskipti kom út nýlega og hin sem fjallar um Tenerife kemur út síðar í mánuðinum.

Snæfríður Ingadóttir, sem starfað hefur við fjölmiðla í meira en 20 ár, hefur lengi haft áhuga á ferðalögum og farið víða. Hún hefur fjallað mikið um ferðamál í starfi sínu sem blaðamaður, auk þess að hafa skrifað nokkrar bækur um Ísland fyrir erlenda ferðamenn.

Snæfríður hefur gert íbúðaskipti að hluta að lífstíl sínum. Hún ferðast reglulega bæði innanlands og erlendis með fjölskyldu sína án þess að greiða fyrir gistingu enda skapa íbúðaskipti aukin tækifæri til ferðalaga og gefa öðruvísi sýn á áfangastaðina.

Bókin Íbúðaskipti er leiðarvísir fyrir aðra sem vilja feta sömu braut og ferðast meira án þess að borga. Í bókinni deilir Snæfríður reynslu sinni af af íbúðaskiptum, útskýrir hvernig kerfið virkar, veitir lesendum innblástur og hvetur lesendur til gefandi og hagsýnni ferðalaga í gegnum íbúðaskipti. En þar er m.a. fjallað um:

-hvaða vefsíður eru bestar?
– hvernig er best að undirbúa heimilið fyrir skiptin?
– hvað ber að varast?
-hvernig er best að sannfæra makann um að prófa íbúðaskipti?
-eru bílaskipti góð hugmynd?

Eins og áður segir er bókin Íbúðaskipti nú þegar komin út og er til sölu í Eymundsson en þann 23. maí næstkomandi mun ferðahandbókin Ævintýraeyjan Tenerife – stór ævintýri á lítilli eyju koma í verslanir.

Snæfríður ferðast árlega til Kanaríeyja með fjölskyldu sinni og er Tenerife í sérstöku uppáhaldi hjá henni. Í bókinni deilir hún úr reynslubanka sínum og gefur lesendum hugmyndir að ýmsu áhugaverðu sem vert er að skoða og upplifa á Tenerife.

Snæfríður mun kynna bækur sínar á Amtsbókasafninu í mánuðinum. Þann 15. maí kl. 17:00 mun hún kynna bókina um Íbúðaskipti og fimmtudaginn 31. maí kl. 17:00 mun hún kynna bókina um Tenerife.

Hægt er að lesa nánar um Snæfríði og ævintýri hennar á heimasíðu hennar Lífið er ferðalag.

 

Sambíó

UMMÆLI