Jónatan Magnússon mun ekki halda áfram sem aðstoðarþjálfari hjá kvennalandsliði Íslands í handbolta. Jónatan er þjálfari KA/Þór en hefur einnig þjálfað kvennalandsliðið undanfarin tvö ár. KA/Þór sigraði Grill 66 deildina í vetur og mun leika í úrvalsdeildinni næsta vetur.
Elías Már Halldórsson kemur í stað Jónatans sem aðstoðarþjálfari en aðalþjálfari verður áfram Axel Stefánsson..
Í fréttatilkynningu frá HSÍ hafði Jónatan þetta að segja: “Eftir tvö ár sem aðstoðarlandsliðsþjálfari hef ég tekið þá ákvörðun að hleypa öðrum að. Það er mikið að gera á Akureyri í starfi yfirþjálfara yngri flokka KA og sem þjálfari kvennaliðs KA/Þórs og mat ég það svo að það tæki of mikinn tíma að sinna einnig landsliðinu. Þetta er búið að vera flottur tími með Axel, Obbu, starfsliðinu og að sjálfsögðu stelpunum líka. Ég tel liðið vera á réttri braut og sjálfur hef ég lært mikið á leiðinni og vonandi miðlað einhverju inn í verkefnið. Ég vil að lokum óska landsliðinu og þjálfarateyminu alls hins besta og hlakka til að fylgjast með því í framtíðinni. Áfram Ísland!”
Axel Stefánsson þakkaði Jonna fyrir gott samstarf: “Samstarf okkar Jonna hefur gengið afskaplega vel. Hann hefur komið inn með mikla þekkingu, reynslu, orku og jákvæðni sem hefur spilað stórt hlutverk í að byggja upp sterka liðsheild og hjálpað bæði liðinu og einstaklingum að taka framfarir. Ég vil óska Jonna áfram velfarnaðar í því góða starfi sem hann kemur að á Akureyri”.
UMMÆLI