Framsókn

Skólabærinn Akureyri  

Á Akureyri höfum við allt til alls þegar kemur að því að mennta einstaklinginn frá vöggu til grafar. Við erum með leik-, grunn-, tónlistar-, framhalds- og háskóla ásamt símenntunarmiðstöð, að ógleymdum ótrúlega fjölbreyttum tækifærum til íþrótta- og tómstundaiðkunar. Við í L – listanum teljum afar mikilvægt að hlúa vel að þessum málaflokki og því skipa skólamál veigamikinn sess í stefnuskrá okkar fyrir komandi kosningar.

Fjárfestum í starfsfólki og menntun barna okkar 

Í skólum Akureyrarbæjar starfar öflugt starfsfólk sem leggur alúð og metnað í að mennta og efla hæfni barna okkar og tryggja vellíðan þeirra. Við í L – listanum viljum bæta starfsumhverfi kennara, efla sjálfstæði þeirra í starfi og auka virðingu fyrir starfi kennarans. Hlutverk kennarans er margþætt í daglegu skólastarfi; að leiðbeina, hvetja, styðja, kenna, hlæja, skapa, dansa, syngja og svo má lengi telja. Enginn dagur er eins og það sem einkennir góðan kennara er að hann er sveigjanlegur og hefur mikla aðlögunarhæfni. 

Skýra framtíðarsýn þarf varðandi uppbyggingu leikskóla, með það að markmiði að fækka börnum á deildum og bjóða upp á leikskóla frá 12 mánaða aldri.  L-listinn vill bjóða upp á gjaldfrjálsan leikskóla í 6 klukkustundir á dag ásamt því að skoða möguleikann á heimgreiðslum til foreldra sem kjósa að vera lengur heima með börnum sínum. Þarfir barna og ungmenna eru ávallt í fyrirrúmi innan leik- og grunnskóla, en úrlausnarefnin eru mörg og því miður ekki alltaf allar bjargir til staðar fyrir starfsfólk skólanna. L-listinn vill leggja áherslu á að efla félagslega færni, samkennd og leiðtogahæfni nemenda og gera skapandi starfi enn hærra undir höfði með því að auka vægi verk- og listgreina í skólastarfi. L – listinn vill vinna að því að fá breiðari hóp fagfólks inn í skólana, s.s. sálfræðinga, þroskaþjálfa, náms-, kennslu- og félagsráðgjafa, til að mæta ólíkum þörfum barna og ungmenna og draga úr álagi á kennara.  Þannig aukast möguleikar á að tryggja viðeigandi íhlutun um leið og áhyggjur kvikna varðandi líðan og aðstæður nemenda.  Þá þurfum við að halda áfram að hlúa vel að nemendum af erlendum uppruna og vera meðvituð um þörf fyrir aukinn stuðning við þann málaflokk.  

Árangursríkir skólar eru skólar sem geta hjálpað öllum einstaklingum í skólasamfélaginu, bæði starfsfólki og nemendum, að nýta og efla hæfileika sína og ná lengra í þroska. Akureyrarbær á að vera fyrirmynd annarra sveitarfélaga þegar kemur að því að fjárfesta í kennurum og menntun barna okkar. Styðjum betur við starfsfólk skóla og útskrifum skapandi, lífsglaða og sjálfsörugga nemendur í skólabænum Akureyri. 

XL fyrir aukin LÍFSGÆÐI í skólum. 

Hildur Betty Kristjánsdóttir 3. sæti, menntunarfræðingur 

Þorgeir Rúnar Finnsson 4. sæti, deildarstjóri grunnskóla 

Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir 14. sæti, kennari  

VG

UMMÆLI

Sambíó