Allir framhaldsskólar landsins fá smokkasjálfsala að gjöf og afhenti Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, fyrsta sjálfsalann í gær við athöfn í Menntaskólanum að Laugarvatni.
Verkefnið er samstarfsverkefni Ástráðs (Kynfræðslufélag læknanema), Embættis landlæknis, Háskóla Íslands (fræðasvið um kynheilbrigði) og Kynís (Kynfræðingafélag Íslands) með styrk úr Lýðheilsusjóði.
Tilgangur verkefnisins er að stuðla að kynheilbrigði ungs fólks með því að auka aðgengi þeirra að smokkum. Í erindi Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis kom fram að embættið hefur séð talsverða aukningu í kynsjúkdómum á Íslandi sem og öðrum vestrænum löndum. Því er mikilvægt fyrir opinbera aðila að taka höndum saman og stöðva þessa þróun. Að gera smokka aðgengilegri fyrir ungt fólk er einn þáttur í því eins og kom fram í tillögum starfshóps sem settur var á laggirnar til þess að stemma stigu við útbreiðslu kynsjúkdóma hér á landi. Tillögur hópsins má sjá hér.
UMMÆLI