Moulin Rouge í Hofi á laugardaginn – Ein stærsta tónleikasýning á Íslandi

Mynd tekin á dansæfingu fyrir Moulin Rouge.

Moulin Rouge tónleikasýningin er ein stærsta tónleikasýning sem sett hefur verið upp á Íslandi á vegum einkaaðila. Þar sjást um 100 manns á sviði, þar af 70 manna kór, 12 dansarar, Todmobile hljómsveitin ásamt frægum leikurum og söngvurum en í aðalhlutverkum eru Greta Salóme, Eyþór Ingi, Sigurður Þór, Gói, Hera Björk, Örn Árnason, Sigríður Eyrún, Heiða Ólafs og Alma Rut. Leikstjóri sýningarinnar er Björk Jakobsdóttir og danshöfundur Unnur Elísabet Gunnarsdóttir.

„Það geta allir sungið með uppáhaldslögunum sínum“
Á sýningunni munu áhorfendur heyra lögin úr myndinni hljóma í mögnuðum útsetningum þar sem söngur og dans koma saman en lögin eru flutt á ensku eins og í kvikmyndinni. Einnig eru leiknar senur þar sem sagan er rakin á milli laga en dansarar og leikarar hafa verið á stífum æfingum undanfarnar 6 vikur. „Lögin eru langflest sungin á ensku fyrir utan tvö. Annað þeirra er óþekktara lag úr myndinni og hinu bættum við inn í sýninguna þó það sé ekki í myndinni. Öll lögin sem fólk elskar úr myndinni eru sungin í upprunalegum útsetningum og á upprunalega tungumálinu, ensku. Því ættu allir að geta sungið með í uppáhaldslögunum sínum,“ segir Greta Salóme í samtali við Kaffið.

Greta Salóme segir valið á hvaða verk ætti að setja upp hafa verið einfalt. Tónlistin og dansatriðin í Moulin Rouge séu einfaldlega engu öðru lík og því hafi það verið slegið.

Mikið af frægum leikurum og söngvurum munu stíga á svið í Hofi á laugardaginn.

100 manns á sviði fyrir aðeins tvær sýningar
„Þessi kvikmynd er algjör perla og lögin í henni eru svo epísk og lög sem allir þekkja. Söng og dansatriðin eru svo stór mörg og þarna er eitthvað fyrir alla óháð smekk. Það er verið að taka lög eins og Your song með Elton John, Lady Marmelade og The Show must go on með Queen. Allt í risastórum útsetningum sem Sinfóníuhljómsveit Norðurlands spilaði meðal annars inn á. Tónlistin er án efa ástæða þess að Moulin Rouge varð fyrir valinu á þessari sýningu,” segir Greta.

Það hryggir eflaust einhverja að aðeins sé um tvær sýningar að ræða, ein í Reykjavík sem haldin var í Hörpu í gær og ein á Akureyri, sem haldin verður í Hofi á laugardaginn. En er von á fleiri sýningum? Af hverju eru aðeins tvær?
„Það er meira en að segja það að koma saman um 100 manns og því erfitt að gera þetta oftar en einu sinni í bili. Það er hins vegar búið að leggja óendanlega mikið í þessa sýningu og atriðin orðin svo stór og flott að það er líklegt að leikurinn verði endurtekinn næsta vetur. En það er óvíst eins og er,” segir Greta aðspurð um hvort von verði á fleiri sýningum.

Langt og strangt æfingaferli
Moulin Rouge verkinu fylgja stór og mikil dansatriði og það þarfnast stífra æfinga. Dansarar í sýningunni eru 12 talsins og hafa verið að æfa marga tíma á dag síðastliðnar 7 vikur. Leikarar og söngvarar eru búnir að æfa aðeins styttra að sögn Gretu en síðustu vikuna hafa allir þurft að gefa sig alla í æfingar fyrir þetta stóra verkefni.

“Ég held að það eigi eftir að koma fólki á óvart hversu langt við erum að ganga í söng og dansi. Svo eru leiknar senur inn á milli þannig að fólk fær söguna einnig beint í æð. Það verður algjörlega epískt að vera með 70 manna kór, 15 dansara, 6 leikara og um 12 söngvara auk hljómsveitar á sviðinu að taka þessi kraftmiklu atriði. Þetta verður sýning sem fær fólk til að hlæja, gráta og fá gæsahúð frá toppi til táar. Það er engin spurning,” segir Greta Salóme að lokum.

Sambíó

UMMÆLI