Eftir að hafa tekið völdin í Póllandi hófu nasistar að smala gyðingum landsins í afmörkuð gettó. Þar bjó fólk við ömurlegar aðstæður, og reglulegar lestarferðir sendu hvern hópinn á fætur öðrum í útrýmingarbúðir. Stærsta gettóið var í Varsjá, og eftir að meira en 250.000 manns höfðu verið sendir í dauðann hófu þeir fáu sem voru eftir uppreisn gegn þýsku hermönnunum.
Þetta byrjaði nítjánda apríl, árið 1943, og eru því nú liðin 75 ár.
En hvað táknaði uppreisnin í Varsjár gettóinu? Hvers virði var hún, fyrir þá sem tóku þátt í henni, og fyrir okkur í dag? Var hún bara einn kafli af ótal mörgun í mannkynssögunni, eða getum við dregið einhvern lærdóm af henni?
Ef maður horfir á uppreisnina sjálfa og áhrif hennar á þeim tíma, þá kom hún ekki að neinu gagni. Hún bjargaði ekki gyðingunum í Varsjá, hún hafði ekki áhrif á seinni heimsstyrjöld, og hafði á endanum ekkert að segja um örlög Varsjár eða Póllands. Baráttan var mjög svo ójöfn, gyðingar liðu miklu, miklu meira mannfall í henni en Þjóðverjar, og hvað varðar það að ná fram einhverju réttlæti fyrir gjörðir nasista þá kemst hún varla nálægt því að jafna metin.
Ef maður horfir á þennan atburð með köldum augu staðreyna þá misheppnaðist uppreisnin gjörsamlega. En manneskjur er að minnsta kosti jafn miklar tilfinningaverur og rökhugsunarverur, og í gettóinu, og helförinni í heild sinni, voru báðar hliðar gjörsamlega búnar að yfirgefa rökhugsun. Önnur hlið kaus það, og hin var þvinguð til þess.
Gyðingarnir í Varsjá vissu mætavel að þeir gætu ekki unnið. Þeir voru þegar búnir að gefa upp alla von um að lifa af. Þeirra eina takmark var reisn; reisnin sem felst í því að deyja ekki eins og dýr í sláturhúsi. Að ráða einhverju um eigin endalok. Að vera manneskjur. Reisn hlýtur að teljast mikilvægasti hluti kjarna okkar. Reisn er stólpinn sem heldur manneskju uppréttri. Það var það að ræna gyðinga reisn með skipulögðum hætti sem gerði nasistum svo auðvelt að misþyrma þeim og myrða. Uppreisnin snerist um það að halda í þennan síðasta neista reisnar og stolts, og um að senda heiminum skilaboð. Að láta í sér heyra, og vera minnst.
Og þó svo við munum svo sannarlega eftir þeim þá eru þessir dagar löngu liðnir, og fólkið sem tók þátt í þeim er fallið frá. Minningin hefur ekkert að segja fyrir þau, þannig að við þurfum að horfa á það hvað hún gerir fyrir OKKUR. Hvaða lærdóm eigum VIÐ að draga af þessum atburðum? Þó svo að mótstaða gegn hroðalegri kúgun og þjóðamorði snerti sannarlega hjartarætur, þá reis bara brot af íbúum gettósins á afturlappirnar, eftir að meirihlutinn hafði þegar verið sendur til Treblinka. Rétt eins og einungis brot þeirra sem voru ekki gyðingar voguðu sér að hjálpa þeim í valdatíð Hitlers.
Eigum við sækja innblástur í gjörðir minnihluta, þótt svo meirihlutinn hafi annaðhvort bara horft upp á eða dáið möglulaust? Eins og uppreisnin sýnir okkur þá eru jú takmörk fyrir því hvað hinir fáu geta áorkað. Hinir fáu geta ekki hreyft heiminn nema við hin fylgjum þeim eftir. Og oft á tíðum gerum við það einfaldlega ekki.
Þó svo það skorti hlutlægt þýðingargildi er lexían af þessum atburðum sú sama og við getum dregið af öllum tilkomumiklu afrekum. Slík afrek eru í eðli sínu fjarri því að vera dæmigerð, rétt eins og fólkið sem framkvæmir þau. Ef allar manneskjur risu gegn valdbeitingu eins og gyðingarnir í Varsjá myndi kúgun einfaldlega ekki fyrirfinnast. Ef það hefði ekki verið minnihluti fólks sem var til í að veita gyðingum húsaskjól þá hefði helförin aldrei átt sér stað.
Þeir sem rísa ofar fjöldanum verða að hetjum í okkar augum, og eru oft á tíðum hvítþvegnir eftir því sem tíminn líður; gert að passa inn í glansmynd sem holdgervingar dyggðar. Eins og þeir sem lifðu uppreisnina af sögðu sjálfir þá líktust þeir engan veginn hinum glæsilegu styttum sem settar hafa verið upp þeim til heiðurs.
Og hugrekki og storkun birtust í mismunandi myndum í gettóinu, sem passa ekki allar inn í hetjusögu. Margir kusu að stytta sér aldur til þess að kvalarar þeirra misstu af tækifærinu, en ætlast var til að menn gerðu slíkt opinberlega. Aðrir fórnuðu blásýru sem þeir höfðu undir höndum, svo að börn gætu notið þess lúxuss að deyja í rúmi. Maður sér almennt ekki styttur af slíku fólki, eða því formi sem andstaða þeirra birtist í.
Þetta fólk var örvæntingarfullt, horað og skítugt. Og þó svo það snerti hjörtu okkar að sjá myndir af fólki sem er nánast orðið að dýrum, þá er þeim ætlað að vekja upp samúð okkar. Það er ekki þannig sem við viljum sjá hetjurnar okkar. En það er of seint að bjarga gyðingunum í Varsjá.
Og þó svo heimurinn hafi brugðist við helförinni með hryllingi og fordæmt hana sem villimennsku, þá er staðreyndin sú að það sem gerist einu sinni getur gerst aftur. Þjóðarmorð eiga sér enn stað í heiminum. Rétt eins og gyðingahatur, fordómar almennt, og fólk sem lætur hatursöldur hrifsa sig með.
Þannig að hvorki hið hrikalega dæmi sem helförin er, né hin dauðadæmda andspyrja gyðinganna í Varsjá hefur haft fyrirbyggjandi áhrif, eða breytt mannkyni til hins betra.
Þannig að fyrst að engu var áorkað, hvorki þá né nú, hvaða ljósi eigum við að beina að þessum atburðum? Hvað situr eftir? Dæmi. Dæmi þess hvernig mannsandinn getur risið á afturlappirnar sama hversu hrottalega hann er troðinn niður. Jafnvel þó að slík dæmi myndi ekki meirihluta, þá minna þau okkur á hvað er hægt. Þau geta myndað leiðarvísi, eitthvað sem heimurinn getur reynt að ná til, þó svo að árangur sé ekki endilega líklegur
Allar manneskjur gera mistök af einhverju tagi í lífinu, en flestar reyna að standa undir sömu grunngildunum. Og ofar öllu öðru þá eru það gildi reisnar og stolts sem bera fólk í gegnum mikla erfiðleika. Stolt veitir fólki sjálfgildi, og sjálfgildi veitir styrk. Og það sem uppreisnin í Varsjár-gettóinu getur gert fyrir okkur er að vera öfgakenndasta dæmið um það hvað þetta gildi getur lifað af.
Mannkynssagan er flókin, og ætti ekki að hólfa niður í skrúbbaðar myndir eða einfaldan gott-á-móti-illu söguþráð. Það er þess virði að skoða söguna í þaula og hreinskilni, og leggja það á sig að finna sína eigin merkingu í henni.
Við getur ekkert gert fyrir gyðingana í Varsjá, né heldur getum við skapað heim þar sem annað eins getur ekki gerst aftur. Og fyrir utan það hvað getum ekki, þá ættum við ekki að endurtúlka þessa atburði, eða reyna að setja þá fram sem eitthvað annað en þeir voru. Því mér finnst ég hér hafa sýnt fram á að blákaldar staðreyndir geta vissulega virkað sem innblástur, löngu eftir að gyðingarnir í Varsjá hófu sína vonlausu baráttu.
Höfundur er Elí Freysson, fæddur og uppalin á Akureyri 1982. Hann stundar um þessar mundir nám við Háskólann á Akureyri.
UMMÆLI