Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt Akureyrarbæ til að greiða íþróttakennara rúmar 160 þúsund krónur með vöxtum eftir að raddbönd hennar sködduðust vegna ófullnægjandi aðbúnaðar við íþróttakennslu.
Jóhanna Einarsdóttir var íþróttakennari í KA heimilinu þegar þar stóðu yfir framkvæmdir haustið 2011. Aðstaðan í húsinu þótti ófullnægjandi frá 26. september 2011 til 5. október 2011.
Í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra segir að starfsaðstæður þar hafi þá verið óboðlegar. Málið var höfðað 7. júní 2016.
Í skýrslu stefnanda segir að í húsinu hafi verið megn lyktarmengun fyrst eftir að húsið var tekið í notkun og þar hafi einnig verið mikið ryk og hávaði. Þá hafi hljóðkerfi sem hafi verið til staðar til að nota við kennsluna verið lélegt og gagnast illa.
Jóhanna var í veikindaleyfi út skólaárið 2011/2012 eftir að rödd hennar brast og hefur ekki snúið aftur til íþróttakennslu síðan. Samkvæmt gögnum málsins hefur hún verið í raddmeðferð sem hefur ekki skilað fullnægjandi árangri.
UMMÆLI