Nafnasamkeppni og kynning á breyttu starfi Kórs Akureyrarkirkju

Kór Akureyrarkirkju. Mynd: Daníel Starrason.

Kór Akureyrarkirkju hefur starfað í á áttunda áratug. Í kórnum eru yfir 70 söngvarar á öllum aldri. Næsta haust mun starfsemi kórsins breytast talsvert. Hlutverk kórsins í helgihaldi Akureyrarkirkju verður eflt umtalsvert og efnisvalið verður fjölbreyttara.

Messuhópar kórsins verða áfram fjórir, en þeir fá algjörlega nýtt hlutverk. Hver messuhópur fær sína sérhæfingu. Hóparnir skiptast á að syngja við messur og aðra viðburði.

Við auglýsum eftir tillögum um nöfn á messuhópana fjóra. Þeir sem detta niður á bestu nöfnin að okkar mati fá verðlaun – stækkaða ljósmynd af eigin vali af heimasíðu kórstjórans okkar, Eyþórs Inga. ( eythoringi.com )
Myndirnar rammaðar inn, í stærð sem hentar sigurvegurunum (að hámarki 40cm/langhlið). Nöfnin mega gjarnan passa við hlutverk kóranna. Tillögur sendist á eythor@akirkja.is fyrir 1. maí nk.

1. Kór
Hlutverk kórsins verður að syngja fallegar sálmaútsetningar og gömlu góðu lögin. Tónlistin verður mest með íslenskum textum, en þó stundum á örðum tungumálum.

2. Kór
Hlutverk kórsins verður að syngja klassíska erfiðari tónlist, oft án undirleiks. Sungið á fleiri tungumálum, latínu, ensku, þýsku o.fl.

3. Kór
Hlutverk kórsins verður að syngja í kvöldmessum og morgunmessum með rytmískri tónlist. Djass, popp, gospel o.fl. Nánast alltaf undirleikur frá flygli eða hammond orgeli. Lífleg framkoma!

4. Kór
Uppeldisstöð kórsins. Gert verður ráð fyrir að það komi í hópinn upp úr tvítugu og hámarksaldur verði 40 ár. Hlutverk kórsins verður blanda úr hlutverkum hinna kóranna.

Sameiginlegur Kór Akureyrarkirkju!
Kórinn heldur nafni sínu en hlutverk stóra kórsins verður að syngja við hátíðarhelgihald, tónleika, jólasöngva og vera glæsilegur fulltrúi kirkjunnar út á við. Kórinn mun æfa hluta af efni allra messuhópa, þannig að allir kórfélagar fái áfram að syngja allar tegundir tónlistar. Þematónleikar verða áfram haldnir, þannig að sum árin verður meiri áhersla á eina tegund tónlistar en aðra.

Kórfélögum verður leyft að vera í fleiri en einum messuhóp. Allir söngvarar í messuhópum taka líka þátt í starfi stóra kórsins. Æfingar verða á þriðjudagskvöldum (bæði stóri kórinn og messuhópur næsta sunnudags) Messuhópur syngur að meðaltali á 5-6 vikna fresti við messu.

Nánari upplýsingar um starf kórsins, fyrirkomulag æfinga, efnisval o.fl veitir kórstjórinn, Eyþór Ingi eythor@akirkja.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó