NTC

Útbreiddur misskilningur að rafvirkjun sé karla- frekar en kvennastarf

Freyja Þorfinnsdóttir, rafvirki hjá Norðurorku. Mynd: 20/20.

“Það var hárrétt ákvörðun hjá mér að læra rafvirkjun og mér líkar þessi vinna mjög vel. Það er útbreiddur misskilningur að rafvirkjun sé karla- frekar en kvennastarf. Fyrst og fremst er þetta fjölbreytt starf sem hentar öllum, bæði körlum og konum,” segir Freyja Þorfinnsdóttir, 34 ára rafvirki hjá orku- og veitufyrirtækinu Norðurorku á Akureyri. Hún hefur starfað þar í um fimm ár, er ein af átta rafvirkjum hjá Norðurorku, raunar eina konan. “Mér líkar afskaplega vel að vinna með strákunum,” bætir hún við.

Áhugasviðsprófið breytti öllu
Á sínum tíma var rafvirkjun ekki efst í huga Freyju sem framtíðarstarf. Eftir tíunda bekk í Hafnarfirði segist hún alls ekki hafa vitað hvert hugurinn stefndi og því ákveðið að fara út á vinnumarkaðinn. Fyrst starfaði hún um tíma á Hrafnistu en fékk síðan ráðningu hjá Símanum þar sem hún gerðist aðstoðarmaður tengjara.  “Vinnan hjá Símanum vakti áhuga minn og ég velti þá fyrir mér að læra eitthvað tengt henni,” rifjar Freyja upp. Hún flutti austur á land, fór í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað, þar sem hún fór í áhugasviðspróf sem leiddi í ljós að rafvirkjun gæti hentað henni vel. Freyja innritaði sig því í rafvirkjun í Neskaupstað og var þar í nokkra mánuði en flutti síðan til Akureyrar og hélt áfram í grunndeild rafiðnaðar í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Ákvað síðan að henni lokinni – þegar valið stóð um að fara í rafvirkjun eða rafeindavirkjun – að fara í rafvirkjunina og henni lauk hún árið 2010. Fyrstu sporin á vinnumarkaðnum tók hún hjá fyrirtæki á Siglufirði en fékk síðan ráðningu hjá Norðurorku og líkar vinnan þar afar vel.

Þurfum fleiri konur í rafvirkjun!
“Það eru allt of fáar konur í rafvirkjun og ég á erfitt með að skilja af hverju fleiri konur fara ekki í þetta nám. Sumir halda að þessari vinnu fylgi mikill óþrifnaður en það er mesti misskilningur. Fyrst og fremst er þetta nákvæmnis handavinna og konur eru ekkert síður færar um hana en karlar. Ég er stolt af því að hafa farið þessa leið og sjö og tíu ára dætrum mínum finnst ekki ónýtt að geta sagt frá því að mamma þeirra sé rafvirki,” segir Freyja Þorfinnsdóttir.

Þessi grein birtist fyrst í blaðinu 20/20 sem var gefið út fyrr í þessum mánuði af iðn- og verkmenntaskólum á Íslandi. Nafn blaðsins vísar til þess sameiginlega markmiðs skólanna að frá og með árinu 2020 skrái 20% grunnskólanemenda á Íslandi sig í iðn- og verknám.

 

VG

UMMÆLI

Sambíó