Lonely Planet, stærsti útgefandi ferðabóka í heiminum, birti í dag grein á vef sínum þar sem mælt er með ferðalagi um Eyjafjörð og nágrenni.
Í greininni segir: „Hringvegurinn er kannski klassíska leiðin fyrir ferðamenn á Íslandi og þar má finna fullt af leyndum fjársjóði en enginn ferðamaður mun sjá eftir því að taka smá krókaleið og skoða það sem Eyjafjörður, lengsti fjörður landsins hefur upp á að bjóða.“
Mælt er með því að byrja ferð sína á Akureyri þar sem má finna nóg af fínum veitingastöðum og hótelum, fara í fjallið og enda daginn í Sundlaug Akureyrar.
„Sama hvernig viðrar er ekkert meira slakandi fyrir vöðvana en ferð í Sundlaug Akureyrar. Ein af bestu sundlaugum Íslands þar sem íbúar bæjarins hittast á hverjum degi og slaka á í heitum pottum og gufuböðum.“
Því næst er mælt með ferð til Árskógsandar í Bjórböðin og halda svo áfram til Dalvíkur, Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Þá er einnig mælt með því að ferðamenn geri sér aukaferð til þess að skoða Goðafoss.
UMMÆLI