,,Það eru margar ástæður fyrir því að ég ætla ekki að bjóða mig fram aftur. Mikil viðvera í Reykjavík hefur t.d. sitt að segja,” segir Brynhildur Pétursdóttir þingmaður en hún ákvað að gefa ekki kost á sér til að leiða lista Bjartarar framtíðar í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum.
Skráði sig í nám
Brynhildur sem búsett er á Akureyri segist ekki ætla sitja auðum höndum þó svo að hún hafi ákveðið að leggja þingstörf á hilluna, í bili að minnsta kosti. ,,Það eina sem ég veit er að nú ætla ég að fara að synda, stunda jóga, ganga á fjöll, elda ítalskt og njóta þess að vera heima hjá mér. Svo er ég búin að skrá mig í nám og ætla sjá hvað verður úr því.”
Er bjartsýn fyrir hönd flokksins
Flokkur Brynhildar, Björt framtíð, kom með miklum krafti inn í íslensk stjórnmál fyrir kosningarnar árið 2013 og fékk 8.2% atkvæða á landsvísu sem skilaði þeim sex þingmönnum. Fylgi flokksins í skoðanakönnunum á kjörtímabilinu hefur hins vegar valdið vonbrigðum. Fylgið virðist þó á uppleið og er Brynhildur jákvæð fyrir hönd flokksins fyrir komandi kosningar. ,,Ég yrði verulega hissa og jafnframt vonsvikin ef Björt framtíð næði ekki inn þingflokki. Við verðum auðvitað að horfa í eigin barm og skoða hvað við getum gert betur en á sama tíma held ég að við eigum mikið inni, ég hugsa að við séum kannski svolítið vanmetin. Góð kosningabarátta sýnir þjóðinni vonandi fram á hvað við höfum verið að gera og hvað við stöndum fyrir,” segir Brynhildur.
Kveður pólitíkina í bili
Brynhildur hefur setið á þingi frá árinu 2013 en hún var formaður þingflokks Bjartar framtíðar síðasta árið á þinginu. Hún starfaði meðal annars í fjárlaganefnd en segir nú skilið við pólitíkina. “Ég hef allavega sagt skilið við pólitíkina í bili. Það er gefandi og lærdómsríkt að starfa sem kjörinn fulltrúi og ég mæli með því að fólk sem hefur skoðanir á því hvernig samfélag við byggjum taki með einhverjum hætti þátt í stjórnmálum.”
Myndi vilja breyta miklu á Alþingi
“Það var mjög áhugavert að starfa á Alþingi en ég myndi vilja breyta miklu. Eitt af því sem fer mjög í taugarnar á mér er skipulagsleysið.” Brynhildur nefnir að hægt væri að tæknivæða Alþingi til muna og nýta þá fjarskiptatækni sem í boði er. ,,Síðan finnst mér skrítið að ekki sé verið að nota fjarskiptatæknina í miklu meira mæli. Margir þingmenn búa úti á landi auk þess sem þingmenn ferðast mikið til útlanda á vegum þingsins. Það væri svo gráupplagt að nýta fjarfundi í meira mæli,” segir Brynhildur að lokum.
UMMÆLI