Páll Viðar Gíslason, þjálfari karlaliðs Magna í knattspyrnu, framlengdi samning sinn við félagið á herrakvöldi félagsins um síðustu helgi. Páll skrifaði undir samning sem gildir til 31. október árið 2020.
Samningur Páls átti að renna út næsta haust. Undir stjórn Páls tryggðu Magnamenn sér sæti í Inkasso deildinni í fyrsta skipti í sögu félagsins. Páll tók við liðinu fyrir síðasta tímabil en hann hefur áður þjálfað lið Völsungs á Húsavík og Þór á Akureyri.
„Við Magnamenn erum mjög svo ánægðir með að hafa náð samkomulagi við Palla og tryggt okkur hans starfskrafta næstu þrjú tímabil. Palli Gísla hefur unnið frábært starf fyrir félagið og komið okkur á þann stað sem við viljum vera á, það er að spila fótbolta á sem hæsta klassa,“ segir í fréttatilkynningu frá Magna.
UMMÆLI